„virðist hann skulda félögum sínum þokkalegar skýringar”

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, fjallar um illindin milli Gunnars Smára Egilssonar, stofnanda Sósíalistaflokksins og Kristjönu Valgeirsdóttur, gjaldkera Eflingar-stéttarfélags, sem DV og Eyjan hafa fjallað um að undanförnu.

Óhætt er að segja að þau eldi saman grátt silfur þessa dagana, en lögmaður Kristjönu segir tilefni til að stefna Gunnari Smára fyrir meiðyrði vegna tilhæfulausra ásakana hans í garð skjólstæðings síns.

Dreifarinn

Pistill Karls ber heitið „Dreifarinn“ og þar segir:

„Um mann nokkurn var sagt að hann færi um og segði mönnum almælt tíðindi, og þægi mat fyrir. Ekki ætla ég að nota þau orð um Gunnar Smára Egilsson, en hann fer þó um og dreifir ýmsu.“

Þá útskýrir Karl framvinduna í stuttu máli:

„Við höfum nú í nokkra daga fylgzt með svolítið undarlegum fréttum af Eflingu og meintum átökum á skrifstofu hennar. Þær hófust með skrifum Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðið (já, henni er ennþá leyft að vera nálægt tölvu) um vondan anda og leiðindi sem hefðu fylgt nýja formanninum, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, og framkvæmdastjóranum, Viðari Þorsteinssyni. Ekki vitum við vel hvað hæft er í því, en þar var líka fullyrt að veikindaleyfi fjármálastjórans, Kristjönu Valgeirsdóttur, mætti rekja til þess að hún neitaði að greiða reikning frá eiginkonu Gunnars Smára án þess að stjórn félagsins samþykkti greiðsluna fyrst. Upp frá þessu hefur staðið fúkyrðastrókurinn upp úr Gunnari Smára í garð þessarar Kristjönu og nú síðast yfir lögmann hennar, Láru V. Júlíusdóttur. Þetta er með nokkrum ólíkindum, og er þá varlega orðað.“

Eitthvað undarlegt á seyði

Karl víkur að viðbrögðum formanns Eflingar, sem hafnar því að Kristjana fjármálastjóri hafi neitað að greiða reikningana:

„Sko. Það er skiljanlegt að Gunnar Smári reiðist fyrir hönd eiginkonu sinnar. Alda Lóa Leifsdóttir er frábær ljósmyndari og á vitaskuld að fá greitt fyrir vinnu sína, og það er algerlega óþolandi ef eitthvert möppudýr hjá Eflingu kemur í veg fyrir það. En hér er eitthvað undarlegt á seyði. Sólveig Anna formaður og Viðar framkvæmdastjóri sendu nefnilega frá sér yfirlýsingu. Hún er á vef félagsins, svo að ekki er Mogginn að ljúga því sem þar stendur meðal annars orðrétt:

„Hvorki formaður né framkvæmdastjóri Eflingar kannast við þá fullyrðingu blaðamanns Morgunblaðsins að fjármálastjóri hafi neitað að greiða reikninga frá Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanni sökum þess að þeir hafi ekki verið samþykktir af stjórn.“

Það er nú svo. Kristjana neitaði semsagt ekkert að borga reikningana?“

Vanstillt viðbrögð

Karl veltir fyrir sér viðbrögðum Gunnars Smára vegna þessa máls, sem hann segir vanstillt:

„Hvað þá? Hvaðan í himninum kemur Gunnari Smára þessi ótrúlega vanstilling í garð Kristjönu? Vanstilling er meiraðsegja vitlaust orð, því að persónuleg heift og hatur lýsa betur því semþar á sér stað. Gunnar Smári segir hana lygna, ómerkilega og illgjarna, og hann gaf meiraðsegja ríflega í skyn að hún hefði „stungið inn á sig“ fé. Það heitir að þjófkenna fólk.

Nánar á

http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/10/11/karl-th-um-gunnar-smara-virdist-hann-skulda-felogum-sinum-thokkalegar-skyringar-thessu-ojafnvaegi-og-ja-furdulegum-donaskap/