Vinstri grænir rjúfa 6000 félaga múrinn

Vinstri grænum fer fjölgandi á Íslandi að því er fram kemur í tilkynningu frá flokknum í dag, en félagsmenn hans rufu sex þúsund manna múrinn í vikunni og hafa að sögn, aldrei verið fleiri á félagsskrá í 19 ára sögu VG.

Félögum í VG hefur fjölgað jafnt og þétt frá því í desember, en fyrir þann tíma hafði orðið nokkur fækkun frá kosningum.  Síðustu vikurnar hafa innskráningar tekið enn meiri kipp, eins og jafnan gerist þegar kosið er um efstu sæti á listum.

Það er annars af starfi flokksins að frétta að nú fer fram forval hans í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar, en rafræn kosning um fimm efstu sætin fer fram 24. febrúar. Líf Magneudóttir, oddviti listans,  er ein í boði í fyrsta sæti, en barátta er um önnur sæti á listanum og stefna flestir úr hópi ellefu frambjóðenda á þriðja og fjórða sætið.