Vínbúðin hvetur fólk til að samþykkja ekki fíkniefnaneyslu - „dyrum vínbúðarinnar verður því væntanlega lokað og heildsölu á tóbaki hætt“

„Á dögunum birtist heilsíðuauglýsing í dagblaði þar sem brýnt er fyrir lesendum að „samþykkja EKKI fíkniefnaneyslu”. Fyrir neðan prýða svo síðuna kennimerki þeirra fyrirtækja, samtaka og stofnana sem að auglýsingunni standa, en þar fer fremst í flokki sjálf Vínbúðin.“

Svo segir í Huginn & Muninn, skoðanapistli Viðskiptablaðsins, í dag. Virðist Vínbúðin með þátttöku sinni í auglýsingunni gera greinarmun á fíkniefnum sem ríkið veitir því einkaleyfi til að selja og öðrum fíkniefnum, löglegum eða ólöglegum. Pistlahöfundi þykir þetta skjóta svolítið skökku við:

„Vart er hægt að leggja annan skilning í þátttöku einokunarverslunarinnar en þann að um meiriháttar stefnubreytingu sé að ræða, þar sem lagst sé gegn neyslu áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna. Dyrum Vínbúðarinnar verður því væntanlega lokað og heildsölu stofnunarinnar á tóbaki hætt, í beinu framhaldi.“

Höfundur segir að skiljanlegra sé að önnur fyrirtæki sem setja nafn sitt við auglýsinguna brýni þetta fyrir lesendum. „Þótt rekstur Vínbúðarinnar samræmist ekki yfirlýsingunni eru aðrir aðstandendur sem hafa tekjur af, eða hreinlega grundvalla tilveru sína að einhverju leyti á fíkniefnastríðinu. Þeirra þátttaka er öllu skiljanlegri og viðbúnari.“

Áfengis- og tóbaksfíkn algengust

Samkvæmt grein Íslenskrar erfðagreiningar um fíkn er fíkn í áfengi og tóbak algengust, enda um lögleg efni að ræða sem ríkið hefur einkaleyfi á að selja.

Þar segir einnig: „Mörg önnur fíkniefni eru þekkt, sum ólögleg fíkniefni ekki ætluð til lækninga en önnur eru notuð við lækningar á ýmsum kvillum s.s. ADHD, verkjum, eða geðröskunum. Amfetamín, kókaín, kannabisefni, róandi efni, og ópíumskyld efni s.s. morfín og heróín, eru allt efni sem fjöldi manna hefur ánetjast á Íslandi og árlega eru um 1.500 manns lagðir inn til meðferðar við vímuefnafíkn á sjúkrahúsinu Vogi.“

Þá kemur fram að á Íslandi eru nú 22 prósent líkur fyrir karla og 10 prósent líkur fyrir konur að verða vímuefnafíklar einhvern tíma á ævinni og að í 80 prósent tilvika sé vímuefnaröskunin fyrst og fremst áfengissýki.