Villikettirnir munu fella stjórnina

Villikettirnir munu fyrr eða síðar fella ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að mati Karls Garðarssonar, fyrrverandi fréttastjóra Stöðvar 2 og alþingismanns, en hann rýnir í helstu fréttamál líðandi stundar ásamt Þóru Kristínu Áasgeirsdóttur, fyrrverandi fréttastjóra Fréttatímans í Ritstjóraþætti kvöldsins.

Þau eru ekki á einu máli um líftíma nýrrar stjórnar, Þóra Kristín telur allt eins líklegt að nýja stjórnin lifi af heilt kjörtímabil, en Karl segir að VG-liðar muni ekki þola mótlætið lengi þegar fylgið fer að dala í skoðanakönnunum næstu missera. Hins vegar muni villigeltir Sjálfstæðisflokksins róast eftir því sem líður á kjörtímabilið, að því er honum sýnist.

Eftirmál búsáhaldabyltingarinnar eru til umfjöllunar í fyrri hluta þátttarins, einkum það hvort menn eigi að skammast sín vegna mótmæla við heimili stjórnmálafólks - og svo fær kvennabyltingin líka sinn sess í umræðunni, en þau Þóra Kristín og Karl eru á sama máli að kynjamenningin muni breytast til frambúðar eftir metoo-bylgjuna sem riðið hefur yfir heimsbyggðina síðustu vikur og mánuði.

Ritstjórarnir byrja klukkan 21:00 í kvöld.