Vill rúv af auglýsingamarkaði

„Ég hef talað fyrir því að við horfum til Norðurlandanna. Þar eru ríkisfjölmiðlarnir ekki á auglýsingamarkaði. Ég teldi farsælast að svo væri líka á Íslandi, ásamt því að vera með styrki til fjölmiðla, eins og boðað er í fjölmiðlafrumvarpinu.“

Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við Morgunblaðið í dag, þar sem hún ræðir um fjölmiðlafrumvarp sitt. Lilja ráðgerir að leggja frumvarpið fyrir þingið í haust og telur að það geti leitt til verulegra breytinga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Hún segir það í undirbúningi að RÚV fari af auglýsingamarkaði og að ef svo fer sjái hún fyrir sér að stofnuninni verði bætt það upp í formi styrkja. „[H]ér eru ekki styrkir greiddir, eins og til dæmis er lagt til í fjölmiðlafrumvarpinu. Þegar það hefur verið samþykkt verðum við komin á svipaðan stað og hin Norðurlöndin hvað varðar styrki til fjölmiðla.“

„Ég vil að okkar RÚV sé álíka sterkt og ríkisfjölmiðlar á hinum Norðurlöndunum. Það sem er hins vegar slæmt við íslenskan fjölmiðlamarkað er að starfsskilyrði einkareknu fjölmiðlanna eru mun lakari en á hinum Norðurlöndunum og við verðum að breyta því,“ bætir hún við.

Lilja segir erfið skilyrði einkarekinna fjölmiðla komin til vegna auglýsingatekna sem ríkisfjölmiðillinn er með. Auglýsingatekjur RÚV eru tæpir tveir milljarðar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið skoðar nú frekari leiðir til að jafna stöðu íslenskra og erlendra fjölmiðla á auglýsingamarkaði. Virðisaukaskattur er til að mynda greiddur hér á landi af innlendum auglýsingum en ekki af auglýsingakaupum hjá erlendum miðlum. Þannig missa innlendir fjölmiðlar tekjur og ríkið um leið skatttekjur.