Vill pólsku sem opinbert mál hérlendis

Arngrímur Vídalín íslenskukennari kallar eftir því í pistli á Stundinni að Alþingi viðurkenni pólsku sem opinbert mál hérlendis. Hann bendir m.a. á að Pólverjar séu langstærsti hluti íslenskra innflytjenda og að smærri þjóðabrot í fjölda landa eigi kost á að njóta opinberrar þjónustu á sínu móðurmáli.

„Rétturinn til að tala sitt móðurmál í sínu heimalandi er mikilvægur, að minnsta kosti hvað opinbera þjónustu varðar, og séu nógu margir sem tala tiltekið tungumál á tilteknu svæði er rétt að athuga grundvöll þess að viðurkenna það sem opinbert tungumál svæðisins, rétt eins og gert hefur verið í Skandinavíu,“ skrifar Arngrímur.

Hann bendir á að nýlegar tölur frá Hagstofunni sýni að yfir tíundi hluti Íslendinga séu innflytjendur. „Þar af eru Pólverjar langstærsti hlutinn, tæpur helmingur allra innflytjenda eða um fimm prósent af þjóðinni allri. Þetta er sambærilegur fjöldi og sænskumælandi Finnar, en umtalsvert stærri hluti þjóðarinnar en til dæmis Samar hvort sem þeir eru búsettir í Noregi, Svíþjóð eða í Finnlandi.“ Arngrímur bendir á að sænska sé opinbert tungumál í Finnlandi og að samíska sé það sömuleiðis í Noregi, Svíþjóð eða Finnlandi.

Pólverjar á Íslandi eru nú rúmlega 17.000 og fer fjölgandi. Arngrímur spyr: „Hvenær verður tímabært að ræða um það hvort gera eigi pólsku að opinberu máli á Íslandi? Fjölmörg fyrirtæki hafa þegar tekið það frumkvæði að bjóða upplýsingar á pólsku og er það vel, en betur má ef duga skal. Það er kominn tími til að íslensk stjórnvöld setjist á rökstóla og ræði það í fullri alvöru hvort og þá hvenær rétt skilyrði hafa verið uppfyllt, og sömu skilyrði yrðu þá skilgreind um leið, til að pólska megi teljast til opinberra mála á Íslandi. Með öðrum orðum: Hvenær pólskir Íslendingar megi vænta þess að fá að njóta opinberrar þjónustu á því máli sem þeim er tamast.“

Að mati Arngríms hefur Ísland þegar náð þessu marki en segir að Alþingi þurfi að meta framhaldið. „Ég hvet þingmenn til að taka þetta mál til umræðu og velta því fyrir sér í fullri einlægni hvort ekki sé komið að pólskum Íslendingum að fá tilvist sína sem íslensks þjóðarbrots að fullu viðurkennda.“