Vill lengja fæðingarorlof í tvö ár

Sæunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Miðstöð foreldra og barna, segir í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 að fremur ætti að lengja fæðingarorlof í tvö ár en að vinna að opnun ungbarnaskóla. Foreldrum ætti að vera gert kleift að vera heima með börnum sínum tvö fyrstu ár ævi þeirra, þegar grunnur er lagður að heilaþroska þeirra, og skapa þeim sem mest öryggi og draga úr streitu.

Í viðtalinu segir Sæunn að fæðingarorlofið eigi lítið skylt við orlof, enda sé um að ræða almesta þjónustuhlutverk sem fólk taki að sér á ævinni. Fyrstu tvö árin sé lagður grunnur að heilaþroska barnsins, hugmyndum þess um það sjálft og um heiminn. Miklu skiptir að skapa sem mest öryggi og draga úr streitu hjá barninu því streita hafi áhrif á heilaþroska barna. Þá bendir hún einnig á að fleiri en einn þurfi til að sinna barninu fyrstu árin þótt móðir þess hafi stærra hlutverk fyrstu vikurnar og mánuðina.

Sæunn telur það vera ranga stefnu að fjölga ungbarnaleikskólum, enda sé starfsfólk á leikskólum of fátt og börn þurfi fleiri fullorðna í kringum sig fyrstu árin og færri börn, sem er öfugt farið á leikskólum. „Það er rosalega streituvaldandi fyrir lítið barn að vera marga klukkutíma á dag frá foreldrum sínum innan um mörg önnur þurfandi lítil börn. Það er auðvitað hávaðinn og áreitið sem fylgir því. Ég veit að það finnst mörgum foreldrum erfitt að heyra þetta því þetta eru einu valkostirnir sem þeir hafa og þeir hafa þá ekki einu sinni. Eins og þetta er í dag er dálítið mikið galið,“ segir Sæunn um leikskóladvöl barna sem eru yngri en tveggja ára.