Vill hert eftirlit með barnaníðingum

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur tvívegis lagt fram frumvarp um hert eftirlit með dæmdum barnaníðingum. Samkvæmt frumvarpinu myndu barnaníðingar þurfa að gangast undir vissar kvaðir eins og bann við búsetu þar sem börn eru, eftirlit lögreglu með heimili þeirra og eftirlit með netnotkun þeirra, auk þess sem barnaverndaryfirvöldum yrði gert viðvart um búferlaflutninga þeirra. Þetta kemur fram í í nýjasta tölublaði DV í dag.

Frumvarpið hefur ekki enn fengið umræðu en í samtali við DV segir Silja Dögg ástæðuna fyrir því að hún leggi það fram vera hversu algengt það er að dæmdir barnaníðingar haldi áfram að brjóta af sér að afplánun lokinni.

Hún segir frumvarpið ganga út á að tengja kerfin betur saman. „Barnavernd, löggæsluna, dómstólana og alla sem koma að þessum málum. En það yrðu ekki hengd upp plaköt með myndum af brotamönnum á staðnum. Þetta snýst um samvinnu. Núna er þetta þannig að eftir afplánun láta þessir menn sig hverfa, skipta um nafn og flytja til annarra sveitarfélaga. Þannig kaupa þeir sér tíma, halda áfram að brjóta af sér og eyðileggja fjölda fólks, fyrir lífstíð jafnvel. Það sem ég er að leggja fram í þessu frumvarpi er kannski ekki eina rétta leiðin en þetta er tilraun til þess að byrja einhvers staðar, að taka umræðuna og reyna að finna leið til þess að koma í veg fyrir þessi brot.“

Hún telur að fólk vilji sjá eitthvað gert í þessum efnum og segir kerfið ekki í stakk búið til að taka á málum af þessu tagi. „Ég vona að þetta komi til umræðu í vetur, en ef ekki þá legg ég það aftur fram á næsta þingi. Best væri ef ráðuneytin sem þetta heyrir undir, félagsmála og dómsmála, legðu fram frumvarp því þá tæki það skemmri tíma.“