Vilja vísa skýrslunni til héraðssaksóknara

Braggamálið:

Vilja vísa skýrslunni til héraðssaksóknara

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, vilja vísa skýrslu innra eftirlits Reykjavíkurborgar um braggamálið til héraðssaksóknara. Þær hyggjast leggja fram tillögu þess efnis á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn. Fréttablaðið greinir frá.

Á fundi borgarráðs í gær óskuðu Vigdís og Kolbrún eftir umræðu um skýrsluna og lagði Vigdís þar fram bókun þar sem hún greindi frá því að þær hyggjast flytja tillögu á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn um að vísa skýrslunni til héraðssaksóknara, til frekari yfirferðar og rannsóknar. Rökstyður hún þessa ákvörðun sína og Kolbrúnar með vísan í almenn hegningarlög um skyldur opinberra starfsmanna í störfum sínum.

Vigdís segir í bókuninni að í skýrslunni sé að finna „mjög alvarlegar athugasemdir og ábendingar“, meðal annars um „alvarleg lögbrot sem of langt mál er að fara yfir í bókun þessari.“ Hún segir borgarfulltrúa vera að bregðast ríku eftirlitshlutverki sínu sem kjörinna fulltrúa ef þeir aðhafist ekkert í kjölfar þess að innri endurskoðandi hafi eftirlátið borgarfulltrúum úrvinnslu skýrslunnar.

Nýjast