Vilja varanlegt leyfi gæludýra í strætó

Strætó bs. mun óska eftir varanlegri heimild frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til þess að leyfa gæludýr í strætisvögnum. Þetta var samþykkt á stjórnarfundi Strætó þann 1. febrúar síðastliðinn. Stundin greinir frá.

Í fyrra var sett á fót tilraunaverkefni sem leyfir gæludýr í strætisvögnum tímabundið en heimildin fyrir því rennur út í lok mars.

Í frétt Stundarinnar kemur fram að Strætó hefur látið framkvæma þrjár kannanir á viðhorfi vagnstjóra og farþega til gæludýra í strætó. Niðurstöður þeirra kannana eru að 50 prósent þeirra eru jákvæðir eða mjög jákvæðir fyrir verkefninu. Tíu kvartanir eða ábendingar höfðu borist frá því að verkefnið fór af stað í febrúar í fyrra þar til í lok janúar í ár.

Þegar framkvæmdastjóri Strætó hefur óskað eftir varanlegri heimild frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu mun samráðshópur haghafa einnig meta kosti og galla við verkefnið, í samræmi við þau skilyrði sem ráðuneytið setti verkefninu.