Vilhjálmur reiður: ekki boðlegt að bjóða íslendingum uppá þessa vitleysu lengur

„Það hefur verið lengi vitað að við Íslendingar höfum verið vaxta- og verðtryggingarpínd og það um alllanga hríð.“

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ í pistli á Facebook-síðu sinni. Þar deilir Vilhjálmur frétt Vísis þess efnis að Jyske Bank í Danmörku býður nú sínum viðskiptavinum húsnæðislán með – 0,5 prósent vöxtum. Vilhjálmur segir:

„Það sem er hins vegar algjörlega ólíðandi er að viðskiptabankarnir þrír skuli ekki skila stýrivaxtalækkun Seðlabankans til neytenda, en eins og flestir vita þá er Seðlabankinn búinn að lækka stýrivextina um 0,75% frá því að lífkjarasamningarnir voru undirritaðir

Á sama tíma og þessi stýrivaxtalækkun um 0,75% hefur átt sér stað hafa viðskiptabankarnir einungis lækkað verðtryggðavexti um ca 0,25% sem er eins og áður sagði óþolandi.“

Bætir Vilhjálmur við að ekki sé boðlegt að bjóða íslenskum neytendum uppá „þessa vitleysu lengur. Vilhjálmur segir:

„Þ.e.a.s. greiða 3,25% vexti og takið eftir, verðtryggingu ofan á það og það á sama tíma og verið er að bjóða dönskum neytendum húsnæðislán á neikvæðum vöxtum eða fasta til 30 ára á 0,5% óverðtryggt.“

Þá segir Vilhjálmur að lokum:

„Ég skora á viðskiptabankana þrjá til að „drullast“ til að skila þessari vaxtalækkun til neytenda og það strax!“