Vildi harða yfirlýsingu í stað vaxtahækkunar

Vaxtahækkun Seðlabankans um 0,25 prósentustig er ótímabær að mati Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.„Hagkerfið er að kólna mjög hratt,“ segir Halldór og bætir við að það þýði ekki að horfa í baksýnisspegilinn og færa rök fyrir vaxtahækkun með því að hagvöxtur á fyrri árshelmingi hafi veirð sterkur. 
 

„Þessi viðsnúningur er að gerast núna og hann er að gerast ansi hratt. Vegna þess teljum við að þessi vaxtahækkun sé ótímabær,“ segir Halldór og segir blikur vera á lofti. „Harður tónn frá Seðlabankanum hefði verið eðlilegri en að þeir myndu bíða og sjá hvernig þróunin verður næstu vikurnar,“ segir hann.

Halldór segir það blasa við að megin óvissan framundan séu komandi kjarasamningar. Það sé óskiljanlegt að Seðlabankinn komi ekki með sviðsmyndagreiningu um þessa óvissu. „Því nú er rétt tíminn, þegar viðræður eru að hefjast. Ekki eftir mánuð.“

Nánar á

http://www.ruv.is/frett/vildi-harda-yfirlysingu-i-stad-vaxtahaekkunar