Viktor orri fer ekki aftur í framboð

Einn líflegasti talsmaður Pírata, Viktor Orri Valgarðsson, hefur ákveðið að fara ekki fram í komandi þingkosningum.

Viktor Orri, sem er varaþingmaður og hefur vakið athygli þegar hann hefur tekið sæti á alþingi, tilkynnir þetta í langri facebook-færslu í dag.

Þar segist hann hafa slegið framhaldsnámi á frest til að berjast fyrir málstað Pírata, en nú hafi hann tekið ákvörðun í hina veruna:

„Í hreinskilni sagt, þegar ég horfi áratugi fram í tímann, dreymir mig frekar um að rannsaka, kenna og skrifa um stjórnmál í einhverjum háskólanum – sennilega hrópandi í einhverri akademískri eyðimörk – heldur en að festast á þingi, af því sem hlyti þá að vera orðinn gamall vani.“

Viktor Orri bætir við:

„Ég get ekki undirstrikað nógu vel að þessi ákvörðun er alfarið persónuleg, ekki pólitísk. Að sjálfsögðu kitlar mig óbærilega að taka fullan þátt í kosningabaráttunni sem nú er að byrja og hverju því sem á eftir kemur. Mér hefur liðið ótrúlega vel innan Pírata, ég lít á alla í forystu flokksins sem og grasrótinni sem vini mína, sem ég á í góðu sambandi og samstarfi við.

Það gerir þessa erfiðu ákvörðun einmitt aðeins auðveldari, að sjá hversu mikið af fáránlega flottu fólki hefur stigið fram innan Pírata undanfarið.“