Vigdís óskar guðmundi til hamingju með sorgina: „menn munu minnast þín og tára þinna“

Til hamingju með sorgina, kæri ráðherra umhverfismála, Guðmundur Ingi, tár þín verða fest á spjöld sögunnar þar sem þú stendur og kveður Okið, rödd þín mun hljóma titrandi fögur og hrein um aldir alda. Menn munu minnast þín.“

Þetta segir skáldið, Vigdís Grímsdóttir í pistli á Facebook. Þar beinir hún orðum sínum til Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. Þar gagnrýnir hún Guðmund harðlega fyrir að hafa ekki látið til sín taka í baráttu gegn fyrirhugaðri virkjun í Ófeigsfirði. Guðmundur Ingi var í viðtali á Stöð 2 þar sem hann tjáði sig um jökulinn Ok sem nú er horfinn. Sagði Guðmundur að mikilvægt væri fyrir Ísland og hina fallegu jökla að senda skýr skilaboð til umheimsins. „Hingað og ekki lengra,“ sagði Guðmundur og vill að allir taki höndum saman. Á Vigdísi er að skilja að sorg Guðmundar vegna jökulsins séu orðin tóm, hann tárist en líti svo undan, sérstaklega þegar kemur að Ófeigsfirði. Vigdís segir:

„Ég skil hvernig þér líður, ég finn skjálftann undir fótum þínum og ég finn hann í hjartanu, en ég verð samt að spyrja þig hvenær þú ætlar að standa með þeirri náttúru sem einu sinni vakti í hugsýn þinni, hreinu víðernunum sólunni fegurri?

Ég þrái að vita hvort allt verði að deyja til að þú sjáir það og saknir þess. Ég trúi ekki að þú viljir einn daginn standa með tár í augum og segja með titrandi röddu að þú saknir þeirra víðerna á Ströndum sem þú sökktir; að þú saknir fossanna, fuglanna, lífsins forna og æða landsins,“ segir Vigdís og bætir við:

„Menn munu minnast þín, Guðmundur Ingi, og tára þinna - menn munu minnast raddar þinnar og fallegu augnanna þinna þegar þú leist undan.“