Viðreisn fagnar þriggja ára afmæli: Allir velkomnir

Viðreisn fagnar þriggja ára afmæli: Allir velkomnir

„Í dag eru 1096 dagar síðan stjórnmálaaflið Viðreisn var stofnað. Þriggja ára afmæli er því staðreynd. Í stóra samhenginu er þetta ekki langur tími en áskoranirnar hafa verið margar. Við höfum upplifað þrennar kosningar og uppskorið mikilvægt lærdómsferli.“

Þannig hefst pistill eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar sem birtur er í Fréttablaðinu í dag. Í tilefni dagsins er efnt til veislu í Ármúla 42 og hefst gleðin klukkan 19:30. Afmælisdagskráin hefst þó klukkan 15 en þá verður staðið fyrir ferð í Þorláksskóga þar sem plantað verður trjám í því miði að vinna á móti kolefnisspori. Báðir viðburðir eru öllum opnir. Rútan fer í Þorláksskóga klukkan 15 frá Ármúlanum og skilar mannskapnum aftur tímanlega fyrir veisluhöldin sem hefjast 19:30

Þorgerður Katrín segir um sögu Viðreisnar: „Viðreisn hefur sett ákveðin málefni á dagskrá og fylgt þeim eftir. Við höfum haft kjark til að gagnrýna á málefnalegan hátt og bent í leiðinni á raunhæfar lausnir. Við höfum lagt fram ótal mál bæði á þingi og í sveitarstjórnum víða um landið sem eru í samræmi við þau gildi sem Viðreisn stendur fyrir. Við erum ábyrg en á sama tíma kjörkuð. Raunsæ en á sama tíma framsækin.“

Þá segir Þorgerður Katrín að Viðreisn hafi talað fyrir því að mikilvægt sé að Ísland sé þjóð meðal þjóða með öflugt alþjóðasamstarf.

„Því þær ákvarðanir sem við stöndum frammi fyrir nú, sérstaklega á tímum óvissu og uppgangs popúlistaflokka, eiga sér engin landamæri. Hvort sem litið er til mannréttindamála, loftslagsmála eða mikilvægi þess að viðhalda áframhaldandi friði, stöðugleika og áframhaldandi lífsgæðum í Evrópu. Ekkert af þessu er sjálfgefið en þar mun Viðreisn áfram standa vaktina.“

Þorgerður Katrín segir að það séu forréttindi að vera formaður flokks sem hafi femínísk, frjálslynd og umhverfissinnuð gildi að leiðarljósi í öllum ákvarðanatökum. Þorgerður Katrín segir:

„Viðreisn hefur stimplað sig inn sem ungt og þróttmikið stjórnmálaafl, sem spratt upp úr kröfu nútímans um frjálst, opið og gróskumikið samfélag sem setur almannahagsmuni, atvinnulífið, jafnrétti og mennskuna í forgrunn. Viðreisn hefur einnig stimplað sig inn á stjórnmálasviðið sem eini flokkurinn sem raunverulega stendur vörð um frjálslynd gildi, þegar á reynir. Flest framfaraskref íslensks samfélags hafa sprottið upp úr þeirri einföldu formúlu að treysta einstaklingnum með frjálslyndum ákvörðunum, samhliða trú á opið samfélag, með virku alþjóðasamstarfi. Blanda sem opnað hefur á tækifæri sem kynslóðirnar á undan okkur óraði ekki fyrir.“ Þá bætir Þorgerður Katrín við að lokum:

„Frá stofnun Viðreisnar hafa margar hugmyndir kviknað og enn fleiri orðið að veruleika, við lofum ekki upp í ermina á okkur og látum verkin tala. Því getið þið treyst.“

Nýjast