Viðmótsblíða án nýrrar hugsunar

Viðmótsblíða án nýrrar hugsunar

 

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur allt frá því í vor boðað róttækar efnisbreytingar á umdeildum búvörusamningum. Breytingatillögur nefndarinnar voru kynntar í vikunni með þeim orðum að í þeim fælist algerlega ný hugsun um landbúnaðarmál.

Satt best að segja er það fremur óvenjulegt að pólitískri gagnrýni sé mætt með jafn viðmótsblíðum orðum. Innan Sjálfstæðisflokksins kom strax fram hörð gagnrýni á samningana og jafnvel andstaða. Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar gerðist fljótt talsmaður breytinga. Forysta hans fyrir þeim málstað er bæði ærleg og virðingarverð. Hann virðist hins vegar ekki hafa fengið þann stuðning frá ríkisstjórninni sem til þurfti.

Í raun var alltaf óraunsætt að reikna með því að fáir áhugamenn í röðum þingmanna ríkisstjórnarflokkanna næðu einir fram efnisbreytingum sem einhverju máli skipta. Með því hefðu undirskriftir landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra verið ómerktar. Það hefði verið eins konar pólitísk niðurlæging nema frumkvæðið hefði komið frá þeim sjálfum.

Samningarnir fela í sér tíu ára framsal á löggjafarvaldi og fjárveitingavaldi á því sviði sem þeir taka til. Í ljósi þess að með þeim var bæði verið að auka verðtryggðar fjárskuldbindingar ríkissjóðs og skerða viðskiptafrelsi var ekki við öðru að búast en fram kæmi hörð gagnrýni þar á meðal í þingliði stjórnarflokkanna.

Í breytingartillögum meirihluta atvinnuveganefndar eru gerðar lítilsháttar tilslakanir varðandi innflutning. Engin efnisbreyting er hins vegar gerð á samningunum. Engin stefnubreyting. Engin ný hugsun. Tímalengd þeirra og endurskoðunarákvæði eru líka óbreytt. Ekki er hróflað við einhliða neitunarvaldi Bændasamtakanna við endurskoðun samninganna.

Þau áform í breytingartillögunum um samráðsnefnd með aðild neytenda og verslunar hafa engan raunverulegan tilgang ef ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti að ríkisvaldið geti fyrir sitt leyti ákveðið að opna samningana að tveimur til þremur árum liðnum. Fallist Bændasamtökin ekki á slíka opnun fyrirfram er aðeins unnt að tryggja hana með lögum. Gerist það ekki nú áður en samningarnir taka gildi rís spurning um bótaskyldu.

Það orkar að vísu verulega tvímælis að það samræmist stjórnarskrá að ráðherrar geti bundið hendur Alþingis í svo langan tíma. Verði aftur á móti látið á það reyna blasa við flóknar lagaþrætur.

Ef opnunarákvæðið yrði ótvírætt og gagnkvæmt gæti sú nefnd sem nefndarmeirihlutinn leggur til vissulega orðið farvegur fyrir nýja hugsun varðandi landbúnaðarmálin. Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og Bændasamtökin geta enn á milli umræðna í þinginu gefið formanni atvinnuveganefndar svigrúm til að breyta skynsamlegum orðum í veruleika.

Á meðan það gerist ekki er pólitíska hlið málsins óbreytt: Stjórnarflokkarnir hafa bundið hendur sínar fram á þriðja kjörtímabil héðan í frá. Á þeim tíma geta þeir engar breytingar gert nema með samþykki Bændasamtakanna. Það er svo háð lagalegri óvissu hvort annars konar þingmeirihluti getur opnað málið.

Þetta er ekki jarðvegur nýrrar hugsunar.

Þó að neytendur reki oft horn í síðu afurðastöðvanna má fullyrða að bændur njóta mikils og almenns skilnings landsmanna. Verkurinn er sá að samningarnir óbreyttir setja fjötra á afkomu bænda án þess að ný hugsun um viðskiptafrelsi og samkeppni hafi komist að. Þegar á reynir er allsendis óvíst að samningarnir verði sú vörn fyrir bændur sem forystumenn þeirra og ríkisstjórnin reyna að telja mönnum trú um.

 

Nýjast