Viðgerðarkostnaðurinn mun enda í 1,4 milljörðum

Viðgerðarkostnaður á húsnæði fjármálráðuneytisins mun verða um 1,4 milljarðar þegar framkvæmdum lýkur seinni hluta þessa árs. Þetta kemur fram í svariBjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. RÚV greinir frá.

Framkvæmdir hófust árið 2013 og er um allsherjarumbætur að ræða, þar sem húsið hafi fengið lítið viðhald undanfarna áratugi og ástand þess eftir því, bæði að innan og utan.

 „Framkvæmdir við húsið hafa farið eftir lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, auk þess sem verkið var boðið út í samræmi við lög nr. 120/2016, um opinber innkaup. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur haft umsjón með hönnun og eftirliti með framkvæmdunum,“

segir í svarinu.

Öll starfsemi fjármálaráðuneytisins mun verða undir sama þaki eftir að framkvæmdum lýkur, en starfsemin er nú á þremur stöðum. Kostnaðurinn er þegar kominn í 860 milljónir en þriðji og síðasti áfanginn mun kosta um 560 milljónir og heildarkostnaður því um 1,4 milljarðar.