Viðar er látinn: „þessar stundir eru okkur ógleymanlegar“

Viðar Garðarsson var frumkvöðull í skíðaíþróttinni hér á landi. Hann landaði Íslandsmeistaratitli og tók síðan þátt í uppsetningu á fyrstu skíðalyftu Akureyrar. Þá var hann skíðaþjálfari og var síðar sæmdur gullmerki Skíðasambands Íslands fyrir óeigingjarnt starf í þágu skíðaíþrótt­ar­inn­ar.

Viðar Garðars­son fæddist 24. októ­ber 1939 á Sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri. Hann lést á Land­spít­al­an­um 4. sept­em­ber 2019. Greint er frá andláti Viðars í Morgunblaðinu en útför hans fór fram í dag. Viðar er einn af þeim sem hafði gríðarleg áhrif til góðs á skíðaíþróttina hér á landi. Hafa margir minnst hans á samfélagsmiðlum síðustu daga og ljóst að hann hefur haft áhrif á marga æa sinni lífsleið.

\"\"Viðar kvænt­ist Sonju Olsen Garðars­son og eignuðust þau þrjú börn. Hann lauk prófi sem mjólk­ur­fræðing­ur frá Statens Meieriskole í Þránd­heimi í Nor­egi árið 1962 og vann sem slíkur til ársins 1982. Tveimur árum áður hafði hann stofnað skíðaþjónustuna á Akureyri og hóf þá sölu á skíðabúnaði. Viðar sýndi mikla þrautseigju, byrjaði í bílskúrnum heima hjá sér en árið 1983 var þetta orðið fullt starf og opnaði þá verslun í eigin húsnæði á Fjólugötu en þar hefur versl­un­in verið starf­rækt æ síðan.

Skíði, skíðabúnaður og aðstæður til skíðaiðkun­ar áttu hug Viðars alla tíð, hann stundaði skíðaíþrótt­ina af miklu kappi og var m.a. Íslands­meist­ari í flokka­svigi. Viðar var frum­kvöðull í skíðaíþrótt­inni og tók þátt í upp­setn­ingu á fyrstu skíðalyftu Ak­ur­eyr­inga, tog­lyftu í Hlíðarfjalli, sem var knú­in áfram með göml­um mótor úr Mjólk­ur­sam­lagi KEA. Viðar átti einnig far­sæl­an fer­il sem skíðaþjálf­ari til margra ára.

Viðar var sæmd­ur gull­merki Skíðasam­bands Íslands fyr­ir óeig­ingjarnt starf í þágu skíðaíþrótt­ar­inn­ar. Hann hlaut einnig viður­kenn­ingu Íþróttaráðs Ak­ur­eyr­ar fyr­ir störf að fé­lags-, íþrótta- og æsku­lýðsmá­l­um og at­hafna- og ný­sköp­un­ar­verðlaun Ak­ur­eyr­ar 2011 fyr­ir framúrsk­ar­andi þjón­ustu, þraut­seigju og góðan rekst­ur fyr­ir­tæk­is.

Margrét Baldvinsdóttir og Tómas Leifsson, gamlir nemendur Viðars segja í minningargrein í Morgunblaðinu:

„Sem þjálfari var hann þolinmóður og hvetjandi og hafði alltaf tíma fyrir okkur unga fólkið. Hann náði miklum árangri með sitt fólk og lagði grunninn að eftirtektarverðum árangri akureyrskra skíðamanna á árunum 1970-1980. Árangurinn sem hann náði með sínu fólki á Skíðalandsmóti Íslands á Siglufirði árið 1973 verður sennilega aldrei endurtekinn en þá hreppti félagið öll verðlaun sem í boði voru í alpagreinum. Viðar var hlédrægur en á þessu móti brosti hann alla daga og var stoltur af sínu fólki.“

„Viddi hélt úti æfingum í öllum veðrum og sagði að við myndum bara herðast við það. Við byggjum á Íslandi og þyrftum að geta tekist á við snjókomu og storma. Hann þýddi yfir á íslensku norsk hefti um skíðaþjálfun og það gerði hann til að gera okkur að betri skíðamönnum. Þegar skíðakeppni var fram undan byrjaði hann viku áður að undirbúa okkur fyrir keppnisdagana. Við áttum að hugsa um keppnisbrekkurnar, fá upp keppnisákafann og vera andlega tilbúin þegar að starti kæmi. Hann var líka okkar sálfræðingur.

Viddi lagði áherslu á samveru okkar iðkenda og í lok æfinga var ósjaldan legið í skíðabrekkunum, horft á fallegan stjörnubjartan himininn eða norðurljósin. Þessar stundir eru okkur ógleymanlegar.“

Hér má sjá viðtal N4 við Viðar: