„við undirritum ekki okkar eigin dauðadóm“

Fjölda gyðinga frá Þýskalandi, Austurríki og Tékkóslóvakíu var neitað um landvist hér á landi af íslenskum yfirvöldum á árunum í kringum seinna stríð og um tuttugu gyðingum var beinlínis vísað úr landi þrátt fyrir að þeirra biði vart annað en frelsissvipting, þjáningar og dauði. Í svarbréfi íslenskra yfirvalda til handa ungu gyðingapari, sem flúðu hingað ásamt börnum sínum ofsóknir nasista, segir að yfirvöld séu „principielt“ mótfallin því að veita gyðingum dvalarleyfi.

 

Marg um skrifað en enn óuppgert

Mikið hefur verið fjallað um hörmungasögu þeirra gyðinga sem hingað komu. Þannig hefur sagnfræðingurinn Þór Whitehead skrifað um stöðu gyðinga hér á landi. Tímaritið Þjóðlíf skrifaði fjöldann allan af greinum um gyðinga sem vísað var úr landi, neitað um dvalarleyfi eða bjuggu hér við þröngan kost. Árið 1989 sýndi Ríkissjónvarpið heimildarmyndina Gyðingar á Íslandi en handrit hennar skrifaði einmitt Einar Heimisson, rithöfundur og blaðamaður Þjóðlífs. Sagnfræðingurinn Snorri G. Bergsson hefur árum saman skrifað um þá sem hingað leituðu aðstoðar, auk þess að sanka að sér miklu magni skjala og heimilda víða. Þá ber að benda á að Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur hefur ritað talsvert um stöðu gyðinga í Danmörku en um leið nokkuð um stöðu þeirra hér á landi. Árið 2005 kom bókin Medaljens bagside (íslenska: Hin hliðin á peningnum) eftir Vilhjálm út í Danmörku en bókin er afrakstur rannsóknarstarfs hans á stöðu þeirra gyðinga sem Danir vísuðu úr landi í seinna stríði. Rannsókn Vilhjálms vakti mikla athygli í Danmörku en skömmu eftir útkomu bókarinnar baðst þáverandi forsætisráðherra Anders Fogh Rasmussen afsökunar á framferði danskra yfirvalda. Umræðan skolaðist þá hingað til lands en var afgreidd af fullkomnum hroka og skilningsleysi á því sérstaka valdi og ábyrgð sem fylgir æðstu embættum samfélagsins.

 

Varlega farið með afsökunarbeiðnir

„Almennt séð er ég þeirrar skoðunar að menn verði að fara afar varlega í að biðjast afsökunar á atburðum sem gerðust fyrir löngu og ákvörðunum sem teknar voru í þeim tíðaranda sem ríkti hverju sinni,“ sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið árið 2005. Þá hafði umræða um hvort rétt væri að íslensk yfirvöld bæðust afsökunar á eigin framferði í kringum stríðið smitast hingað til lands. „Hverja eigum við að biðja afsökunar?“ hefur þýski fjölmiðillinn Deutsche Welle, eftir Steingrími Sævari Ólafssyni, fréttamanni sem þá var aðstoðarmaður Halldórs, árið 2005. Afsökunarbeiðni danskra yfirvalda byggir á gögnum þar sem sýnt þykir að meira en tug gyðinga hafi verið vísað úr landi þrátt fyrir að yfirvöld hefðu mátt segja sér að þeirra biði ekki annað en þjáningar. Danir eru ólíkt Íslendingum nokkuð þekktir fyrir tilraunir til að koma dönskum gyðingum í öruggt skjól. Bók Vilhjálms varpar vissulega skugga á þá glansmynd sem Danir höfðu skapað sér en öllum má vera ljóst að íslensk yfirvöld eiga sér fáar ef nokkrar málsbætur. Talið er að Íslendingar hafi beinlínis vísað á milli tíu til tuttugu gyðingum úr landi. Fjöldinn er nokkuð á reiki en hér er sá fjöldi þeirra sem skrifuðu íslenskum yfirvöldum og fengu synjun eða ekkert svar, ekki talinn með. Ljóst er að þau skipta hundruðum.

 

Mannúð bönnuð á Íslandi

Skömmu fyrir upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar gerði hópur fólks tilraun til að bjarga nokkrum austurrískum gyðingabörnum frá ofsóknum með því að veita þeim hæli hér. Foreldrar barnanna höfðu flest verið hneppt í fangabúðir. Umsókn um dvalarleyfi til handa börnunum var send í desembermánuði árið 1938. Það var Guðlaugur Rósinkranz, yfirkennari og þekktur framsóknarmaður, sem var í forystu fyrir Friðarvinafélagið, en umsóknin var send í nafni félagsins. Gyðingabörnin sem sum voru aðeins þriggja til fjögurra ára gömul komust aldrei til Íslands. Um örlög þeirra er fátt vitað.

Þrátt fyrir að forystumenn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi lýst sig málinu fylgjandi hafnaði Hermann Jónasson, forsætis- og dómsmálaráðherra beiðninni. Þáttur Hermanns í útilokun þeirra sem flúðu ofsóknir nasismans er ekki fallegur en af embættisstörfum ráðherrans má sjá að kerfisbundið hafnaði hann umsóknum flóttafólks um grið hér á landi. Eitt barnanna sem sótt var um landvistarleyfi fyrir var þriggja ára gömul stúlka sem Katrín Thoroddsen barnalæknir og síðar þingkona Sósíalistaflokksins ætlaði að taka í fóstur. Mál gyðingabarnanna er eitt þekktasta mál er varðar tilraunir til að koma Gyðingum í skjól hér á landi. Katrín gerði málinu skil í frægri grein sinni „Mannúð bönnuð á Íslandi“ en greinin birti Þjóðviljinn 28. apríl árið 1938. Hún ræðst harkalega að Hermanni og sakar hann um að hafa nánast upp á sitt eindæmi komið í veg fyrir að börnunum mætti bjarga hingað til lands. „En hvað gerir Hermann Jónasson forsætisráðherra, þegar honum sjálfum gefst tækifæri til að rétta nokkrum austurrískum Gyðingabörnum hjálparhönd, stuðla að því, að þau komist undan ofsóknaræði nazistanna á góð heimili hér á land? Hermann Jónsson gat stuðlað að þessu án þess að láta nokkuð af mörkum sjálfur, það sem hann þurfti að gera var að gegna skyldu sinni sem forsætisráðherra hinnar frjálslyndu íslenzku þjóðar, sýna sjálfsagðan drengskap, sjálfsagða mannúð. Hermann Jónasson lét allt þetta ógert,“ skrifar Katrín. Í greininni segist hún hafa farið á fund Hermanns og beðið hann um stuðning sinn. Hermann mun hafa svarað á þá leið að hann yrði að ráðfæra sig við aðra stjórnmálaleiðtoga.

 

Víðtækur stuðningur

Sjálf sagðist Katrín hafa farið á fund forystumanna úr öllum flokkum, ef frá er talinn Sósíalistaflokkurinn enda taldi hún sig geta gengið að stuðningi þar vísum. Katrín tiltekur einnig að Eysteinn Jónsson, þáverandi fjármálaráðherra og framsóknarmaður hafi verið málinu mjög hlynntur. „Vissi ég hann vera mestan mannkostamanninn í ríkisstjórninni.“ Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins og stjórnarmaður Friðarvinafélagsins lýsti stuðningi við málið sem og Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins. Í greininni lýsir hún fundi sínum með Ólafi með eftirfarandi hætti: „Ólafur virtist ekki síður en ég dálítið undrandi yfir úrræðaleysi ráðherrans og lét segja sér tvisvar. Annars tók Ólafur málinu með þeim drengskap, sem ég hafði búist við, og sagði eitthvað á þá leið, að hann fengi ekki skilið, að nein vandræði hlytust út af slíkum mannúðarmálum, af hans flokks hálfu.“

 

Að auglýsa mannúð sína

Tíminn, málgagn forsætisráðherra svaraði grein Katrínar skömmu síðar undir fyrirsögninni „Fáránleg saga að mannúð sé bönnuð á Íslandi.“ Tíminn sakar þar Katrínu um að vilja ófrægja forsætisráðherra og auglýsa mannúð sína. Þá segir blaðið Katrínu bera sig „aumlega yfir því, að hafa misst aðstöðu til að svala mannúð sinni og hjálparfýsi við þá sem eru illa staddir.“ Fullyrt er að forsætisráðherra hafi tjáð Friðarvinafélaginu að innflutningur á gyðingabörnum yrði háður vissum skilyrðum. „Mun Friðarvinafélagið ekkert hafa gert til þess að reyna að fullnægja þessum skilyrðum og þegar það endurnýjaði umsókn sína án þess að hafa gert nokkuð til að fullnægja þeim, svaraði forsætisráðherra auðvitað neitandi.“ Ljóst er að fullyrðingar Tímans eru ósannar og til þess gerðar að fegra þátt forsætisráðherra í málinu. Skrifleg samskipti Friðarvinafélagsins og ráðherra hafa birst opinberlega en í þeim eru engin fyrirmæli að finna þótt vitnað sé með óljósum hætti í símbréf frá sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn þar sem farið er yfir afstöðu stjórnvalda á Norðurlöndum til viðlíka mála. Friðarvinafélagið svaraði bréfinu skömmu síðar og óskaði svars: „Þar eð háttvirt bréf yðar dags. 16. des. síðastliðinn inniheldur ei svar við bréfi Friðarvinafélagsins dags. 12. des., þar sem félagið óskar eftir leyfi til handa fröken Katrínu Thoroddsen lækni, að mega taka nokkur börn af Gyðingaættum um stundarsakir óskum vér eftir ákveðnu svari við nefndri málaleitan.“ Guðlaugur Rósinkranz, formaður Friðarvinafélagsins, mun hafa reynt að koma leiðréttingu á framfæri við Tímann en aldrei fengið hana birta. Blaðið lét sér ekki nægja að segja ósatt til varnar ráðherra úr eigin flokki heldur gaf jafnvel í og sakaði þá sem aðstoða vildu gyðingabörn um að auglýsa mannúð sína. Undir lok greinarinnar segir;

„… Fólk sem tekur barn til fósturs, vill heldur taka útlent barn en íslenzkt sökum þess, að það vekur meiri eftirtekt. Hinsvegar er vitanlegt, að mörg börn, sem búa við óhæfileg kjör á ýmsan hátt, hafa verið og eru að alast upp hér á landi. Þessum hinum verðandi þjóðarþegnum þarf að hjálpa og til þess eiga bæði velmegandi einstaklingar og það opinbera að gera sitt ítrasta. Slíkt er engu ómannúðlegra en að hjálpa Gyðingabörnum, en stendur okkur hinsvegar miklu nær.“

Í stuttu máli; málgagn Framsóknarflokksins lagði þjáningar gyðinga sem ofsóttir voru og sviptir borgaralegum réttindum sínum til jafns við stöðu fátækra hér á landi og það á stjórnartíma eigin flokks.

 

Trommuðu upp andúð á útlendingum

Innlendir fjölmiðlar voru gjarnir á að tromma upp hatur á útlendingum. Þótt miðlarnir hafi alla jafna sameinast um almennt hatur á útlendingum fremur en harða gyðingaandúð má augljóslega greina að í huga pistlahöfunda voru gyðingar sem allra næst botni fæðukeðjunnar. Tímamenn voru langt því frá að vera þar verstir þótt meðvirkir hafi þeir verið með gjörðum ríkisstjórnar leiddri af Framsóknarflokknum. Bæði Tíminn og Nýja Dagblaðið, sem Hermann Jónasson ritaði gjarnan í, fjölluðu ítrekað um ógnarstjórn nasista og þjáningar gyðinga í Evrópu. Af stóru blöðunum komust fá nærri Morgunblaðinu og Vísi í andúð á gyðingum og stuðningi við stjórnarfar nasista. Morgunblaðið virðist á köflum hafa leitað logandi ljósi að rökum til réttlætingar nasistum, svo mjög að útkoman er í sturlun sinni kómísk, þótt um grafalvarlegt mál sé að ræða. Oftast er málið þannig sett fram „að þeir, sem orðið hafa fyrir „grimdaræði“ nazistanna sjeu dýrðlingar, sem ekkert hafi til saka unnið annað en vera af öðrum þjóðflokki en nazista-„böðlarnir“,“ segir til að mynda í leiðara blaðsins í október 1934. Leiðarahöfundur bætir við að alkunna sé öllum að þýsk þjóð standi öðrum framar í menntun og menningu, því sé ekki undarlegt að margan undrist framferði þeirra gagnvart gyðingum. „Hjer er ekki tilætlunin að bera blak af þýskum stjórnarvöldum hvorki fyrir meðferðina á Gyðingum nje á pólitískum andstæðingum sínum.

En hafa þá Gyðingarnir í Þýskalandi ekkert unnið til saka? Er það bara „kvalarþorsti nazistanna“, sem kemur þeim til að svala sér á alsaklausum mönnum?“ Leiðarahöfundur leiðir að lokum líkur að því að gyðingar hafi tekið frá samfélaginu án þess að greiða til baka, myndað klíkur og otað sínum tota, líkt og Tímamenn hér heima.

 

Íslenskir nasistar áhugalausir um gyðinga

Snorri G. Bergsson fjallar um fordóma íslenskra fjölmiðla í grein sinni Íslensku „nasistarnir“. Um málgögn íslenskra þjóðernissinna segir hann: „Blöð íslenskra þjóðernissinna skiptu sér furðanlega lítið af gyðingavandamálinu í Þýskalandi. Blöð eins og Ísland, Ákæran og Íslenzk endurreisn virtust hafa haft nóg annað til umfjöllunar, en þetta meginatriði í stefnu þýskra nasista. Hins vegar var gyðinga stöku sinnum getið í tengslum við kommúnismann og má því frekar sverja þessa snepla í ætt við stefnuna, en að samræma þeim við nasísk áróðursblöð.“ Snorri segir Vísi og Morgunblaðið hafa gengið hvað harðast fram til varnar Þjóðverjum. Þá vitnar hann í skrif Þórs Whitehead sagnfræðings, sem skrifað hefur töluvert um stöðu flóttamanna á stríðsárunum hér á landi. „Frá því að þýskir nasistar tóku völdin 1933, hafði Vísir verið vinsamlegastur í þeirra garð allra Reykjavíkurblaðanna,“ skrifar Þór. „Þótt Morgunblaðinu hugnaðist sumt vel í stjórnarfari Hitlers, gekk Vísir miklu lengra í því að styðja málstað nasista leynt og ljóst. Síðdegisblaðið hældi Hitler fyrir vasklega framgöngu gegn kommúnistum ... Blaðið hampaði óspart rökum þeirra, sem töldu Hitler mann friðarins, og það hrakyrti fórnarlömb nasista af Gyðingaættum, þegar þau leituðu hér hælis.\" Snorri bendir einnig á að fáum ætti að koma á óvart að hægriblöð hafi allavega í fyrstu verið nokkuð jákvæð í garð Hitlers. Nasistar hötuðust við kommúnista og sýndu andúð sína í verki. 

Samúðarlausir með fullri vitneskju

Vísismenn vissu vel af ofsóknum nasista og fjölluðu ítarlega um þær. Stefna blaðsins var þrátt fyrir það skýr: „Íslendingar geta yfirleitt ekki sætt sig við að menn séu ofsóttir vegna trúar sinnar eða þjóðernis. En menn mega ekki láta þetta villa sér sýn.“ Alla jafna var Vísir því andvígur ofsóknum en samúðarlaus með fórnarlömbum slíkra verka. Þá vildu þeir alls ekki fá slíkt fólk hingað til lands. Ísland væri ekki aflögufært auk þess sem að „gyðingavandinn“ kæmi Íslendingum ekki við, nóg væri af vandamálum hér heima. Skömmu eftir Kristalsnóttina birti Vísir leiðara sem með óhugnanlegum hætti afhjúpar hversu gerilsneytt blaðið var af samúð til handa fórnarlömbum grimmdarverka. Kristalsnóttin eru atburðir níunda og tíunda október 1938 kallaðir, en þá þyrptust brúnstakkar nasista og almennir borgarar út á götur í borgum og bæjum Þýskalands og brutu glugga í verslunum og á heimilum gyðinga. Níutíu og tveir gyðingar voru myrtir og tugþúsundir fluttar í útrýmingarbúðir. „Engum er jafn hættulegt og smáþjóðum sem Íslendingum, innflutningur erlendra manna og blöndun kynstofnsins á þann hátt. Merkur íslenskur vísindamaður hefir sagt, að ekki þurfi nema fimmtíu Gyðinga, er blönduðust þjóðstofninum, til þess að þjóðin hefði misst sín þjóðlegu einkenni eftir 2-3 mannsaldra … Þótt eðlilegt sé að íslenskir borgarar hafi samúð með Gyðingum þá er þó hver sjálfum sér næstur,“ segir í umræddum leiðara blaðsins.

Fagnaði brottvísun Rottberger

Þótt Morgunblaðið hafi alla jafna ekki gengið jafn langt og Vísir í hörku sinni gegn gyðingum verður ekki litið hjá þeim mikla stuðningi sem blaðið sýndi þýskum yfirvöldum. Reglulega var fjallað um gjörðir nasistastjórnarinnar og iðulega með nokkuð jákvæðum hætti. Gyðinga fjallaði Morgunblaðið sjaldan um en leiða má að því líkur að gyðingar hafi talist með þeim „landshornalýð“ sem halda varð frá landinu.  „Það verður að fagna því, að yfirvöld skuli hafa tekið á sig rögg gagnvart þeim landshornalýð sem flækst hefir hingað til lands í þeirri von, að ekkert eftirlit væri haft með dvöl þeirra, eins og tíðkast hefur í mörg ár,“ segir í leiðara Morgunblaðsins 27. mars 1938. Tilefnið var brottvísun Olgu og Hans Rottberger, þýskra gyðinga úr landi - því fagnaði blaðið. Þau flúðu hingað til lands í kjölfar lagasetninga sem sviptu þau öllum réttindum. Nuremberg lögin frægu settu nasistar 1935 en óhugsandi er að leiðarahöfundur hafi ekki vitað hvað fælist í þeim lögum.

Dalandi vinátta Moggans og Þýskalands

„Það verður að meta Morgunblaðinu það til málsbóta, að blaðið hvarf frá slíkum fréttaflutningi, þegar fram liðu stundir,“ ritar Snorri G. Bergsson um fréttaflutning blaðsins og bætir við að vinskapur Morgunblaðsins við Þriðja ríkið hafi dalað mjög hratt undir lok árs 1938. „Hinn 9. nóvember 1938 spáði Morgunblaðið fyrir um ofsóknir á hendur Gyðingum í Þýskalandi, þegar fregn barst um skotárás Gyðingsins Gruenszpans á þýska sendifulltrúann Ernst von Rath í París. Þar var því haldið fram, að alþjóðleg samtök Gyðinga hefðu staðið að baki verknaðinum til að spilla þeirri góðu samvinnu, sem tekist hefði á milli Þjóðverja og Frakka í kjölfar Münchenar-samningsins. Morðið á von Rath hefði í raun verið hluti af stærra samsæri Gyðinga gegn Þjóðverjum. Daginn eftir hafði Morgunblaðið sýnilega rakið samsærið til Þýskalands, því nú greindi blaðið frá skyndiárás þýskrar lögreglu á heimili Gyðinga um allt landið og handtöku samsærismannanna. Lögreglan átti því að hafa gert upptæk 2.700 barefli, 1.700 skotvopn og 20.000 byssuskot. Morgunblaðið taldi víst, að Gyðingar hefðu ekki látið sér nægja að okra á aríum, heldur hefðu þeir auk þess ætlað að grípa til vopna.“ Snorri telur að forystumenn blaðsins hafi að lokum sannfærst um að fréttaflutningur sem þessi væri blaðinu ekki til sóma og fljótlega hafi blaðið farið að fjalla á gagnrýninn hátt um grimmdarverk nasista. „Vinátta Morgunblaðsins við Þriðja ríkið var liðið undir lok. Ívar Guðmundsson, ,,Víkverji\", ritaði meðal annars mæta grein um Þýskaland og fór hún illa fyrir brjóstið á Werneri Gerlach aðalræðismanni, sem boðaði blaðamanninn á sinn fund að Túngötu 18 og atyrti hann fyrir skrifin. Næstur á persnesku teppin var Valtýr Stefánsson ritstjóri og hélt hann hálf sneyptur frá samtali þeirra. Vinátta Morgunblaðsins við Þýskaland nasista var liðin undir lok. Í desember 1939, þegar Þjóðviljinn hafði snúist á sveif með nasistum vegna griðasáttmála Hitlers og Stalíns og Vísir hélt að mestu enn í vinsemd sína við Þjóðverja, reit Gerlach til Hermanns forsætisráðherra. ,,Herra forsætisráðherra. Mér þykir leitt að ég skuli enn á ný neyðast til að bera fram umkvartanir vegna afstöðu íslenzku blaðanna, sem ekki aðeins hafa fjærlagst hlutleysistefnuna, heldur eru nú blátt áfram orðin fjandsamleg Þýzkalandi. Sérstaklega er það ,,Morgunblaðið\" og ,,Alþýðublaðið\", þar sem daglega er hægt að finna dæmi um afstöðu ofangreindra blaða\".“ Réttilega bendir Snorri á að hér hafi ræðismaðurinn þýski misskilið nokkuð hlutleysisstefnu Íslands en hún náði með engu yfir ritstjórnarstefnu dagblaða í landinu.

Þá farið þér með lögregluvaldi

„Staða okkar í Þýskalandi hafði smám saman versnað frá valdatöku nasista,“ sagði Olga Rottberger við rithöfundinn Einar Heimisson fimmtíu árum eftir að henni var af lögreglu vísað úr landi ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum, eins og tveggja ára. Viðtalið birti Einar í tímaritinu Þjóðlíf sem undir lok níunda áratugarins fjallaði ítarlega um ofsóknir íslenskra yfirvalda á hendur gyðinga sem og þátttöku íslenskra ríkisborgara í stríðsglæpum nasista í seinna stríði. Viðtalið var einnig birt í heimildarmynd Einars um gyðinga hér á landi sem sýnd var á RÚV árið 1989. Saga Rottberger-fjölskyldunnar er svartur blettur í sögu Íslands og lýsir óskiljanlegri grimmd og sinnuleysi gagnvart þjáningum meðbræðra okkar. „Í Berlín rak eiginmaður minn útvarpsbúð,“ útskýrði Olga. „Þegar að valdatöku nasista kom, þá tóku þeir auðvitað í sínar hendur yfirstjórn útvarpsmála eins og annarra hluta. Allir þeir sem ráku útvarpsbúðir urðu að láta skrásetja sig sérstaklega. Þegar menn komust að því að við vorum Gyðingar, fengum við ekki að selja ýmsar vinsælar og eftirsóttar vörur í versluninni. Samt sem áður reyndi eiginmaður minn að halda áfram að útvega sér og selja vörurnar. Skömmu síðar var hann kallaður fyrir lögreglu og yfirheyrður en meira var ekki gert í málinu fyrst í stað. Víst er að einhver hafði sagt til hans, líklega samkeppnisaðili.“ Olga segir að seinna hafi Hans, eiginmaður hennar, verið kallaður til lögreglu öðru sinni og í það skiptið hnepptur í varðhald og búð hans lokað. „Hann sagði mér það aldrei, en ég tel víst að hann hafi orðið að þola misþyrmingar, jafnvel pyntingar í fangelsinu. Hann sagði við mig: „Ollie, ég get ekki verið hér lengur. Ég verð að fara burtu“.“

Sem lengst frá Þýskalandi

Hans Rottberger lagði af stað hingað til lands í september árið 1935 en Olga beið fram í desember. Olga segir í viðtalinu að Hans hafi valið Ísland vegna þess að hann vildi komast sem lengst frá Þýskalandi og að hann hafi einhvern veginn heyrt að hér fengju útlendingar enn landvistarleyfi. Fljótlega eftir komuna hingað hóf Hans leðurvinnslu í tilraun sinni til að framfleyta sjálfum sér og fjölskyldu. Hann hafði orðið sér úti um litla vél sem hann notaði við að framleiða buddur og veski en í frásögn Olgu kemur fram að hún hafi aðstoðað hann við þá iðju. Árið 1936 fluttu hjónin í tveggja herbergja íbúð að Holtsgötu þar sem þau bjuggu ásamt því að reka vinnustofu. „Ef ég á að vera hreinskilin, þá líkaði mér ekki verulega vel við Reykjavík. Hún var svo gjörsamlega ólík öllu því, sem við þekktum,“ sagði Olga við Einar fimmtíu árum eftir veru hennar hér.

Kærur Iðnráðs

Gyðingum sem þó komust hingað til lands var sjaldan auðveldað að sjá fyrir sér. Þannig kærðu samkeppnisaðilar þá iðulega ef þeir töldu handiðnað Gyðinganna ganga á viðskiptahagsmuni sína. Rottberger-hjónin voru þannig kærð til Iðnráðs Reykjavíkur. Iðnráði var ætlað að annast réttindamál iðnaðarmanna á því svæði sem það starfaði. Ráðin sem voru starfrækt hér á landi fram að aldamótum voru þannig hluti af ofsóknum Íslendinga gagnvart þeim fáu gyðingum sem þó sluppu inn í landið. Auk Rottberger má nefna að Gyðingur að nafni Ernst Prüller, sem einnig starfaði við leðuriðju og kennslu, mátti sömuleiðis sæta kæru á hendur sér. Þá var Wilhelm Beckmann myndlistarmaður einnig kærður til Iðnráðs. Beckmann var þó ekki vísað úr landi en hann kom hingað til lands vegna ofsókna í heimalandinu. Beckmann var virkur í stjórnmálaflokki jafnaðarmanna í Þýskalandi en nasistar lögðu mikla fæð á sósíaldemókrata. Hvort Beckmann hafi verið gyðingur fer eftir því hver segir frá en líklega var hann það ekki þótt hann hafi sannarlega flúið ofsóknir í Þriðja ríkinu. Það ætti að vekja lesendur til umhugsunar að ofsóknirnar gegn Rottberger-hjónunum hófust með svipuðum hætti hér á Íslandi og í Þýskalandi nasismans, vegna kvörtunar samkeppnisaðila, sem taldi lífsviðurværi hjónanna ganga á eigin hagsmuni og var í staðinn tilbúinn að gerast sekur um að svipta hjónin tilveruréttinum. Fyrirtækið Leðuriðjan, sendi kæru á hendur Rottberger-hjónunum til lögreglu en kæran er dagsett 9. febrúar 1937. Leðuriðjan heitir í dag Atson ehf. en fyrirtækið er enn starfrækt hér á landi.

Send til Þýskalands

Hans Rottberger ritaði Hermanni Jónassyni bréf sumarið 1937 og óskaði eftir framlengingu dvalarleyfis en allt kom fyrir ekki. Í viðtali Einars Heimissonar við Olgu sem birt var í tímaritinu Þjóðlífi lýsir hún því hvernig þeim hjónum var vísað úr landi undir lögreglufylgd. „Við vorum kölluð á lögreglustöðina einhvern tíma á árinu 1937, að mig minnir. Þar vorum við sett í harkalega yfirheyrslu, hvort í sínu lagi. Ég hafði aldrei áður verið kölluð fyrir lögreglu á ævinni. Ég man að varðstjórinn spurði mig margra áleitinna spurninga. Að lokum sagði hann við mig eftirfarandi setningu og hana man ég enn á íslensku.“ Einar Heimisson sem tók viðtalið segir í Þjóðlíf að Olga segi setninguna á furðulega góðri íslensku en í sama viðtali kemur fram að hún hafði ekki hitt Íslending í fimmtíu ár; frá því að henni var úthýst frá Íslandi. „Ef þér farið ekki með góðu, þá farið þér með lögregluvaldi.“ Tilviljun ein réð því að Rottberger-hjónin og tvö börn þeirra, enduðu ekki beinustu leið í útrýmingarbúðum nasista en skipið kom fyrir tilviljun við í Danmörku þar sem þau gátu sótt um hæli. „Í Danmörku kynntist ég því í hverju það felst að vera mannlegur,“ sagði Olga. Þau hjónin urðu þó að flýja Danmörku nokkrum árum síðar þegar Þjóðverjar hertóku landið. Þeim auðnaðist þó ekki að flýja með börnum sínum, sem voru þá fjögur, en börnin voru flutt á kaþólskt barnaheimili á eyjunni Fjóni, þar sem þau voru til stríðsloka þegar hjónin snéru aftur til Danmerkur. Olga lést í heimalandi sínu Þýskalandi á tíunda áratugnum.

„Mig langaði að lifa svolítið lengur“

Skömmu eftir komu Rottberger-hjónanna hingað til lands kom Hans Mann Jakobsson, bróðir Olgu, ásamt móður þeirra. Þeim átti einnig að vísa úr landi en það var þeim báðum til happs að brottflutningarnir töfðust allt þar til Bretar stigu hér á land og þar með var ákvörðunin úr höndum íslenskra ráðamanna. Í viðtali við Þjóðlíf á níunda áratugnum segir að í ráðuneytisbréfi frá lok mars árið 1940 hafi verið fyrirskipað að senda hann og móður hans úr landi. Saga Hans Mann, sem kallaður var Manni af vinum hans hér á landi er mikil sorgarsaga. Hann vann fyrir sér við sveitastörf hér á landi enda þorði hann vart að láta sjá sig í Reykjavík. Hann fékk ávallt minna kaup en Íslendingar og í einhverjum tilvikum var hann alfarið svikinn um kaup. Hans fékk sýkingu í augað og missti það vegna þess hve seint hann komst undir læknishendur. Í Þjóðlífsvíðtali segir hann: „Ég bjó í Berlín, eins og systir mín og mágur. Þar varð ég vitni að mörgu á árunum 1933-1935. Það var daglegt brauð að gyðingar væru niðurlægðir á ýmsan hátt. Allir gyðingar voru merktir með gulri stjörnu og látnir vinna skítverk, skrúbba göturnar undir fótum sér og svo framvegis. Almenningi var skipað að hrækja á þá. Nasistarnir voru eins og rándýr, eins og úlfar. Margir gyðingar frömdu sjálfsmorð á ýmsan hátt þegar á árunum 1933-35, hengdu sig eða skutu sig.“

Svo áfjáð voru yfirvöld hér á landi að losna við Hans Mann að hann var eitt sinn fluttur með lögregluvaldi í bústað þýska ræðismannsins og hann afhentur honum. Þá var Günter Timmermann enn ræðismaður hér á landi en ekki Werner Gerlach en Timmermann var ekki nasisti en það var Gerlach svo sannarlega. Ræðismaðurinn reif pappíra Hans Mann og sagðist ekkert hafa við hann að gera. „Ég sagði við lögreglumennina, að ég hefði, sem gyðingur, verið sviptur þýskum ríkisborgararétti með Nurnberg-lögunum 1935 og ætti í engin hús að vernda. Ég mátti ekki segja, að ég væri Þjóðverji. Ég gat aðeins sagt, að ég væri júði, fæddur í Þýskalandi. Mennirnir á lögreglustöðinni hlustuðu ekki einu sinni á mig þegar ég lýsti fyrir þeim högum mínum.“ Hans Mann segir móður sína ekki hafa viljað vera hér í landi þar sem hún væri svo illa liðin. „Okkur var sagt að dvalarleyfi okkar væri útrunnið og við yrðum að fara úr landi. Við vorum bæði látin undirrita, að okkur væri skylt að fara. Móðir mín mótmælti og sagði: „Við undirritum ekki okkar eigin dauðadóm“.“ Hans Mann sem lést árið 1997 segir í samtalinu við Þjóðlíf að æviskeiðið hafi haft mikil áhrif. Hann væri enn bitur vegna þeirra þjáninga sem hann hafi þurft að þola í lífinu. „Ég skil ekki hvers vegna guð lét drepa sex milljónir gyðinga. Þegar ég hitti hann ætla ég að spyrja hann að því.“

Fékk aldrei að snúa heim

Umfjöllun þessi er með engu móti tæmandi og þótt fátt hafi hér komið fram sem ekki hefur áður verið skrifað er saga þeirra sem hér er sögð mikilvæg og vert að hún sé sögð sem oftast og mest. Þeir sem verja vilja framgöngu Íslendinga og sinnuleysi gagnvart ofsóttu flóttafólki grípa gjarnan til fullyrðinga um að Íslendingar hafi vart getað vitað hvað átti sér stað í Þýskalandi nasista. Það ber ekki vott um mikla þekkingu eða skilning á áhrifum heimsstyrjaldarinnar seinni, og raunar áhrifum þeirrar fyrri, á samtímann, að halda slíkri þvælu fram. Raunar er það á mörkum þess að vera niðurlægjandi að sóa dálksentimetrum í að svara slíkum fullyrðingum. Íslendingum, og þá enn frekar íslenskum ráðamönnum, mátti vera löngu ljóst að staða gyðinga var eins ómanneskjuleg og hugsast gat strax um 1930, og raunar fyrr. Sturlandi hatur Adolfs Hitlers birtist mönnum í bók hans Barátta mín (Þýsk: Mein Kampf) árið 1925 og dró hann þar enga dul á skoðanir sínar.

Ítarlega er fjallað um Hitler og gyðinga í tímaritinu Lögrjettu árið 1933 og meðal annars birtur kafli úr bók Hitlers á Íslensku. „Öllu mannkyni má skifta í þrent. Þær þjóðir, sem mynda menningu, þær sem halda henni uppi og þær sem eyða henni. Þær þjóðir, sem hafa verið mestir og bestir menningarstofnendur, eru Aríar. Þeir hafa alstaðar í sögunni verið menningarfrömuðir,“ hefur Lögrétta eftir bók Hitlers auk þess að skýra þá afstöðu Hitlers að gyðingurinn sé mesta andstæða aríans. „Sjálfsbjargarviðleitnin er sennilega hvergi eins þroskuð eins og hjá hinni svonefndu útvöldu þjóð, og sjest það ekki síst á þeirri einföldu staðreynd, að þjóðin skuli hafa getað varðveitt tilveru sína allar þær aldir sem sem hún hefur lifað á rótlausum ruglingi, í tvö þúsund ár.“ Lögrétta hefur þá eftir Hitler að gyðingar hafi aldrei skapað sjálfir neina sjálfstæða menningu. Þeir hafi verið næmir á annarleg áhrif, naskir í því að apa eftir öðrum. „Og ástæðan er sú, að þeir hafa einlægt verið eigingjarnir; fórnarlund þeirra hefur einlægt verið sjerdræg. Sjálfsbjargarhvöt þeirra hefur aldrei beinst út fyrir sjálfan sig eða sjálfa þá, þeir hafa altaf hugsað um það eitt, að bjarga sjer til þess að bjarga sjer, að græða aðeins til þess eins að græða.“ Hitler heldur áfram: „Þeir eru ekki sjerstakur trúarflokkur, þeir eru sjerstakur kynbálkur, af öðrum anda en Aríar, auðvirðilegir og óvinveittir Aríum, aðskotadýr í heimi germanskrar menningar.“

Þáttur Hermanns Jónassonar

Komi sú tíð að íslenskt samfélag telji sér fært að gera upp þátt okkar í miskunnarlausum ofsóknum á hendur gyðingum, má ljóst vera að sagan mun ekki fara mjúkum höndum um Hermann Jónasson, forsætis- og dómsmálaráðherra, stóran hluta stríðsáranna. Umfram aðra var Hermann í þeirri aðstöðu að geta beitt sér í þágu þeirra sem hingað leituðu. Með beinum hætti má rekja dauða 4 - 7 gyðinga í útrýmingarbúðum nasista til aðgerða íslenskra yfirvalda. Talan er eins og aðrar tölur um útrýmingar nasista á reiki og hugsanlega talsvert vanmat. Ótalin eru afdrif þeirra sem fengu engin svör eða hafnað var strax í upphafi.

Nýja Dagblaðið hóf strax frá fyrsta tölublaði að fjalla um glæpi nasista. Blaðið fjallaði árið 1934 ítarlega um bók Gerhart Seger, sem dúsa mátti í fangabúðum nasista. Dag eftir dag birti blaðið kafla úr bókinni auk ritskýringar en þar segir: „Undanfarnir kaflar úr bók Gerhart Seger, eru nokkur sýnishorn þeirr­ar með­­­ferðar, sem margar þúsundir saklausra manna í Þýzka­landi hafa sætt og sæta enn af völdum nazista. Það er ó­mót­mæl­anleg staðreynd, að ríki þeirra, vald og fram­kvæmdir, grundvallast fyrst og fremst á fang­elsun­um, og und­ir­okun alls per­sónu­legs frels­is í land­inu… Eftir lestur hennar, og ef til vill fleiri jafn á­reið­an­legra bóka um sama efni, kunna þeir menn að verja nokkrum mín­útum til þess að gera það upp við sjálfa sig, hvort þvílík með­ferð, þvílík fram­koma og stjórnar­hættir séu líkleg til auk­inn­ar far­­sældar, sið­mann­legrar full­komn­unar og göfugrar lífsham­ingju, eða hvort þessar að­gerð­ir liggja nær því að hrapa heilli þjóð niður í ríki villi­mennsk­unnar með flest­ar þær lökustu eig­ind­ir, sem vest­rænt mann­kyn taldi sig hafið yfir fyrir öld­um síðan.“ Höfundur ritskýringarinnar er Hermann Jónasson ráðherra.

Fékk aldrei að snúa heim

Af sanngirni má halda því fram að fram að stríðslokum hafi menn, þrátt fyrir að gera sér grein fyrir voðaverkum nasista, ekki fyllilega áttað sig á skala né alvarleika grimmdarverka þeirra. Í nútímanum geta fáir haldið því fram að þeir þekki ekki voðaverk Norður-Kóreu, en í landinu eru á hverri stundu vart færri en 250 þúsund pólitískir fangar í ótrúlegu neti útrýmingarbúða. Ekkert okkar getur sagst ekki vita, nema þá fyrir eigið val og vilja til að loka augunum. Líklega náum við vart utan um skala þeirrar þjáningar sem norður-kóreskt samfélag býr við fyrr en núverandi stjórnvöld missa tak á landinu. Til samanburðar má spyrja hver viðbrögð Íslendinga voru að stríði loknu? Sorgarsaga sem lítið hefur verið ritað um eru afdrif Áslaugar Meister. Hún var ásamt foreldrum sínum, sem voru gyðingar, send í útrýmingabúðir nasista en lifði af.  Hún var fædd á Íslandi, skírð í Fríkirkjunni og ólst upp á Njarðargötu. Hún var samkvæmt flestum mælikvörðum íslensk, talaði íslensku og lék sér við börn í Reykjavík á uppvaxtarárunum. Að loknu stríði leitaði hún aðstoðar íslenskra yfirvalda til að komast heim en bauðst engin hjálp.

Framkoma  íslenskra ráðamanna gagnvart þeim sem flúðu nasismann voru ekki vanhugsuð vegna vitneskjuskorts á þeim þjáningunum sem biðu þeirra . Viðbrögðin voru grimmileg og köld þrátt fyrir vitneskju um afleiðingarnar á ævi þeirra sem hingað leituðu mannúðar.

 Endurbirting á umfjöllun Man magasín frá maí 2014