Við getum alveg unnið saman

Það fer vel á með Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR þar sem setjast á rökstóla um kjaraviðræður komandi vetrar í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.

Þeir eru sammála um mikilvægi kerfisbreytingar í samfélaginu og almennrar lífskjarabótar, sérstaklega þegar kemur að húsnæðismálum, en stjórnvöld geti ekki annað en liðkað til á vinnumarkaði í þeim efnum, húsnæðisliðurinn vegi það þungt í rekstri venjulegs launafólks í landinu að annað komi þar ekki til greina - og þá nefnir Ragnar Þór líka skattamálin og vinnutímann, en Halldór botnar þá umræðu með þeim orðum að vel sé hægt að ná saman á þessum sviðum, ekki sust ef stjórnvöld hjálpi þar til, en svigrúmið innan atvinnugreina sé vissulega misjafnt til launahækkana og mikilvægt sé að lofa ekki meiru en efnisleg innistæða sé fyrir.

Þeir eru báðir sammála um að áfram verði haldið á þeirri braut að hækka hlutfallslega mest laun þeirra sem bera minnst úr býtum - og spurðir um gjána á milli SA og verkalýðsforystunnar segjast þeir vel geta unnið saman, vel fari á milli þeirra, róttæknin hafi enda ekki bara aukist innan aðildarfélaga ASÍ heldur líka á skrifstofum SA eins og Ragnar Þór hefur á orði.