„við eigum ekki að þurfa að vera til“

 „Það á að vera hægt að fagna afmælum en eins og við höfum oft sagt eigum við ekki að þurfa að vera til. Það að þessi barátta skuli hafa tekið 10 ár og að sigur skuli ekki vera unninn, að við skulum ennþá vera að berjast fyrir því að lögbundin réttindi neytenda séu virt, það er eiginlega bara mjög sorglegt,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna, sem voru stofnuð í kjölfar efnahagshrunsins, áttu 10 ára afmæli í gær, 15. janúar. Ásthildur Lóa og Vilhjálmur Bjarnason, varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna, voru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi.

Í afmælistilkynningu frá samtökunum kemur fram að 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum frá hruni og að samtökin hafi vitneskju um að þau séu mun fleiri. Varlega áætlað telja samtökin að um 15.000 heimili sé að ræða eða um 45.000 manns.

„Það sem hefur áunnist er að umræðan er loksins núna eftir þessi 10 ár komin á það stig að það eru eiginlega allir farnir að átta sig á því að það er eitthvað mikið að á Íslandi. Við höfum verið að benda á fátækt, fólk getur ekki lifað af laununum sínum. Við höfum verið að benda á vexti, verðtryggingu, stjórnkerfið, dómskerfið. Það er svo margt sem er að, þannig að umræðan um að það þurfi að laga hlutina er það sem við getum sagt að sé kannski mesti sigurinn okkar,“ segir Vilhjálmur aðspurður um hvað hafi áunnist á þessum 10 árum.

Í áðurnefndri tilkynningu frá samtökunum er einnig tekið fram að tölfræðin sýni að um 15 prósent þjóðarinnar hafi misst heimili sín á Íslandi undanfarin 10 ár án þess að hér hafi ríkt stríðsástand eða orðið stórfelldar náttúruhamfarir. Þessar fjölskyldur hafi ekki enn fengið réttindi sín viðurkennd og munu búa við afleiðingar þess um langa framtíð. Það sé því eitt helsta baráttumál Hagsmunasamtakanna að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun og áhrifum þeirra og afleiðingum fyrir heimilin.