Vg og framsókn þori ekki í hugsjónabaráttu

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir í grein í blaðinu í dag að breytingartillaga Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata við veiðigjaldsfrumvarp feli í sér kollvörpun með því að aflaheimildir yrðu afturkallaðar á tuttugu ára tímabili og þeim endurúthlutað.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir tillögurnar einfaldar. Þær kveði á um tímabundna samninga um aflahlutdeild. Það tryggi annars vegar að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar og hins vegar stöðugleika fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Að auki ganga tillögurnar út á að veiðigjald fari til þeirra landsvæða sem „hafa þurft að þola breytingar á sínu nærsamfélagi vegna uppbyggingar kerfisins“.

Aðspurð um hvort breytingartillögurnar feli í sér kollvörpun segist Þorgerður Katrín hafa bent á að það sé bara tvennt í dæminu. „Annaðhvort skilja menn ekki tillöguna og það er gott og blessað. Við förum yfir hana í umræðunni á morgun [í dag]. Eða hitt, að menn eru vísvitandi, sem er mjög alvarlegt, að afbaka tillöguna. Þá spyr ég: Hverra erinda er verið að ganga? Hverjir hafa hagsmuni af því að afbaka umræðuna með þeim hætti sem verið er að gera?“