Vg kaupir stefnu sjálfstæðisflokksins um ótímabundinn veiðirétt

Sjávarútvegsráðherra hefur kynnt frumvarp um úthlutun aflahlutdeildar í makríl. Frumvarpið markar pólitísk tímamót. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti eftir álit auðlindanefndar frá árinu 2000 að VG kemur að úthlutun varanlegrar ótímabundinnar aflahlutdeildar við ríkisstjórnarborðið.

Auðlindanefndin var þverpólitísk nefnd undir forystu Jóhannesar Nordal. Niðurstaða hennar fól í sér tvenn nýmæli: Annars vegar gjaldtöku og hins vegar tímabundnar veiðiheimildir. Um það náðist sem sagt þverpólitísk samstaða að hverfa frá gjaldfrelsi og ótímabundnum úthlutunum aflahlutdeildar. Þetta var grundvallar breyting sem átti að leiða til frekari sátta um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Hlaupið frá sáttinni í auðlindanefnd

Sjálfstæðisflokkurinn hljóp frá þessari sátt áður en blekið var þornað á undirskriftunum. Framsókn fylgdi á eftir. Samfylkingin og VG héldu hins vegar fast í þau grundvallarsjónarmið sem sátt varð um í nefndinni. Á allra síðustu árum virtist Framsókn svo aftur vera komin inn á sjónarmið auðlindanefndarinnar um tímabundnar heimildir en sýnist nú enn á ný vera horfin frá þeim.

En nú hafa hins vegar þau stóru pólitísku tíðindi gerst að VG hefur einnig hlaupið frá sáttinni í auðlindanefndinni. Að ákveðnu marki var skiljanlegt að VG náði ekki í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn að breyta löggjöfinni til samræmis við álit auðlindanefndar að því er varðar þá fiskistofna sem um áraraðir hafa fallið undir reglur um ótímabundinn rétti útgerðarinnar.

Málamiðlanir eru óhjákvæmilegar við stjórnarmyndanir. Hugsanlega var þetta verðið fyrir forsætisráðuneytið. Enda var ekki látið á þetta sjónarmið reyna við stjórnarmyndunina.

En hitt kemur mjög á óvart að VG skuli ekki hafa látið á það reyna hvort samstarfsflokkarnir væru fúsir til að virða álit auðlindanefndarinnar þegar að því kom að úthluta aflahlutdeild í makríl í fyrsta sinn. Það bendir til þess að VG hafi formlega yfirgefið þau sjónarmið og keypt óbreytta stefnu Sjálfstæðisflokksins. Möguleiki á málamiðlun virðist ekki einu sinni hafa verið færður í tal.

Tímabundin aflahlutdeild er stærsta prinsippið við stjórn fiskveiða

Tímabundin aflahlutdeild er í raun stærsta prinsipp atriðið varðandi stjórnun fiskveiða. Ótímabundnar heimildir tryggja ekki ævarandi eignarrétt útgerða en þær styrkja lagalega stöðu þeirra og annarra til að líta svo á. Og að óbreyttu vinnur tíminn með því sjónarmiði.  Á hinn bóginn er augljóst að tímabundnar heimildir fullnægja best skilyrðum um sameign þjóðarinnar og nauðsynlegan varanleika til að tryggja hagkvæmar veiðar. Það skiptir því miklu máli hvor leiðin er farin.

Makrílfrumvarpið er því ekkert smámál. Afstaða Framsóknar hefur fyrst og fremst ráðist af því með hverjum hún vinnur hverju sinni. Hald manna var hins vegar að stefna VG væri reist á meiri prinsippfestu.  Nú er annað komið á daginn. Flokkurinn hefur hvort tveggja hlaupið frá stefnunni um hærri veiðigjöld og tímabundinn veiðirétt. Meira afgerandi getur kúvendingin varla verið.

Umpólun VG opnar tækifæri fyrir aðra

Í ljósi þess að stjórnarflokkarnir virðast stefna að áframhaldandi setu eftir næstu kosningar verður að líta svo á að hér sé um að ræða varanlega stefnubreytingu af hálfu VG. Að minnsta kosti getur flokkurinn ekki með trúverðugleika tekið aftur upp prinsipp auðlindanefndarinnar eftir þetta samkomulag um makrílinn.

Tímabundið má segja að þessi umpólun veiki stöðu þeirra þriggja frjálslyndu flokka á Alþingi sem haldið hafa fast í prinsipp auðlindanefndarinnar. Það hefur kvarnast úr þeirri samstöðu.  En um leið opnar umpólunin ný sóknarfæri fyrir Samfylkinguna, Viðreisn og Pírata. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort eða þá hvernig þeir hyggjast nýta þá opnun.