Veröld vigdísar

Hús erlendra tungumála mun bera nafnið Veröld, hús Vigdísar. Tilkynnt var um niðurstöðu samkeppni um heitið í Hátíðasal Háskóla Íslands í dag.  Húsið verður vígt við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl næstkomandi.
 
Efnt var til samkeppni um heiti hússins og bárust hátt í 800 tillögur frá rúmlega eitt þúsund einstaklingum. 
 
Í húsi erlendra tungumála verður, auk kennslu í erlendum tungumálum, að finna Vigdísarstofnun en hún er starfrækt á grundvelli samkomulags milli íslenskra stjórnvalda og UNESCO. Auk rannsókna- og vísindastarfs er hlutverk Vigdísarstofnunar að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningu alls mannkyns og gildi þýðinga og tungumálakunnáttu fyrir farsæl samskipti þjóða.