Verkfallsaðgerðir gætu hafist í byrjun mars

Stjórnvöld gera sér ekki grein fyrir alvarleika stöðunnar, segir formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti Alþýðusambandsins. Ef stjórnvöld fari ekki að sýna tillögur sínar til að liðka fyrir kjarasamningum blasir við að kjaraviðræðum við atvinnurekendur verði slitið á fimmtudag og undirbúningur verkfalls hefjist. Verkfall gæti hafist í byrjun mars.
 

Launafólk og atvinnurekendur hafa beðið með óþreyju eftir skattatillögum ríkisstjórnarinnar svo liðka megi fyrir kjarasamningum og ráðgerður er fundur fulltrúa ríkisstjórnarinnar og forsetateymis Alþýðusambandsins á þriðjudag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að unnið hafi verið að breytingu skattkerfis í þágu þeirra tekjulægstu. 

„En það liggur auðvitað algjörlega fyrir að það skiptir máli að það sjái til lands í kjaraviðræðum áður en stjórnvöld koma með sitt innlegg til þess að greiða fyrir því að kjarasamningar geti náðst,\" segir Katrín.

Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrsti varaforseti Alþýðusambandsins.

http://www.ruv.is/frett/verkfallsadgerdir-gaetu-hafist-i-byrjun-mars

„Því miður held ég að stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir þeim alvarleika á þeirri stöðu sem upp er komin. Núna er bara staðan einfaldlega orðin þannig að hún er grafalvarleg. Til þess að við í verkalýðshreyfingunni getum vegið og metið hvort það sé ástæða til þess að halda áfram þessum viðræðum verðum við að fá að sjá þær útlínur sem stjórnvöld hafa í hyggju að leggja til þess að liðka fyrir þessum kjarasamningum. Ef þau ekki gera það þá held ég að það blasi við að viðræðum verður slitið næsta fimmtudag og menn munu hefja undirbúning að boðun verkfalls. Þannig er bara staðan,“ segir Vilhjálmur.