Verkalýðsfélögin samhent í sinni vinnu

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir það af og frá að upp séu komnir brestir í samstöðu verkalýðsfélaganna fjögurra sem skutu kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara í lok síðasta árs. Fréttablaðið greinir frá því að heimildarmenn blaðsins telji félögin hafa of ólíka hagsmuni til að geta klárað viðræður í samfloti.

„Það er algerlega af og frá. Við erum mjög samhent í þessari vinnu og stöndum og föllum með henni saman,“ segir Vilhjálmur við Fréttablaðið. Hann bætir við að fundur forsetateymis ASÍ með stjórnvöldum á morgun muni geti haft úrslitaáhrif á hvort samningar náist. Næsti fundur verkalýðsfélaganna fjögurra hjá ríkissáttasemjara verður á fimmtudag.

Í Fréttablaðinu kemur fram að starfshópur fjármálaráðherra um skattkerfisbreytingar hafi lokið sinni vinnu og munu ráðherrar úr öllum flokkum ríkisstjórnar funda um þær í dag. Tillögurnar séu hugsaðar sem útspil í kjaraviðræðurnar en samkvæmt fjármálaáætlun má ráðstafa fjórtán milljörðum í skattkerfisbreytingar. Hvernig þeim fjármunum verður varið getur haft mjög ólík áhrif á félagsmenn verkalýðsfélaganna fjögurra.

Vilhjálmur hefur talað í þá veru að ef ekkert breytist í kjaradeilunni, þ.e. að stjórnvöld geri ekkert til að liðka fyrir því að kjarasamningar náist, muni félögin slíta viðræðum og hefja undirbúning að boðun verkfalls. Heimildir Fréttablaðsins meðal félagsmanna VR telja þó ólíklegt að verkfall verði samþykkt í VR. Ragnar Þór hafi ekki annan kost en að ná samningum, enda megi líta svo á að hann hafi þegar náð helstu markmiðum félagsins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er litið svo á að formenn Verkalýðsfélags Akraness og VR hafi sameiginlega hagsmuni af því að ræða vexti, verðtryggingu, vísitölu og húsnæðismál. Hins vegar þurfi formaður Eflingar að semja um kjör hinna lægst launuðu og formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur er sagður á svipuðum nótum og formaður Eflingar, þar sem hann sé að semja fyrir fiskverkafólk á svipuðum launakjörum og félagsmenn Eflingar.