Verður ólína þorvarðardóttir næsti útvarpsstjóri?

Talið er fullvíst að Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri verði skipaður Þjóðleikhússtjóri innan skamms. Magnús Geir sótti um starfið og þeir sem til þekkja telja sig vita með vissu að hann hefði ekki sótt um nema vera búinn að tryggja sér starfið áður. Magnús Geir á glæsilegan starfsferil að baka, m.a. sem leikhússtjóri Borgarleikhússins og svo æðsti yfirmaður RÚV, útvarpsstjóri, síðustu fimm árin. Hann er fyrst og fremst leikhússmaður, hámenntaður og reyndur á því sviði.

 

Um leið og þetta gerist byrja strax vangaveltur um eftirmann Magnúsar hjá RÚV enda er hér um að ræða eina mikilvægustu stöðu sem um getur í menningarlífi og fjölmiðlun hér á landi. Ætla má að margir muni gefa sig fram og sækjast eftir þessari stóru stöðu. Menntamálaráðherra skipar útvarpsstjóra í raun þó stjórn RÚV gangi formlega frá ráðningu í samræmi við óskir ráðherrans. Ef einhverjum hæfum framsóknarmönnum væri til að dreifa hlyti það að vera freistandi fyrir Lilju Alfreðsdóttur að skipa útvarpssjóra úr flokki sínum. En í fljótu bragði verður ekki komið auga á hæfan flokksmann hennar til að gegna þessu starfi. Líklegar má telja að Lilja muni leita að hæfum miðju-eða vinstri manni í embættið. Ekki spillti fyrir ef um væri að ræða konu en konur hafa aldrei gegnt stöðu útvarpsstjóra hjá RÚV.

 

Nafn Ólínu Þorvarðardóttur hefur strax verið nefnt. Hún er fyrrverandi Alþingismaður og borgarfulltrúi eins og kunnugt er. Hún hefur einnig gegnt ýmsum stjórnunarstöðum eins og að vera skólastjóri Menntaskólans á Ísafirði. Ólína er mikið menntuð og hefur doktorsgráðu. Hún er afkastamikill fræðimaður og hefur þannig bæði menningarlegan og stjórnunarlegan bakgrunn til að gegna stöðu útvarpsstjóra. Auk alls þessa þá hefur hún starfsreynslu sem fréttamaður á sjónvarpinu um árabil þar sem hún þótti afar skelegg og fylgin sér.

 

Ólína sótti um stöðu Þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum en var ekki ráðin. Þótti mörgum freklega gengið fram hjá henni við þá ráðningu í ljósi mikillar menntunar og reynslu. Nú gefst tækifæri til að bæta henni upp þá framgöngu.

 

Verði Ólína ráðin útvarpsstjóri RÚV yrði hún fyrsta konan til að gegna þeirri stóru stöðu. Lilja Alfreðsdóttir yrði væntanlega stolt af því að skipa konu í þetta embætti í fyrsta sinn í sögunni.