Verðmæti sjávarafla aldrei meira

Útflutningsverðmæti sjávarafurða á föstu meðalgengi síðasta árs nam 239,6 milljörðum króna á árinu í erlendri mynt. Verðmætið jókst um 34,5 milljarða króna milli ára, eða 16,8 prósent. Útflutningsverðmæti sjávarafurða á föstu nafngengi hefur ekki áður mælst jafn mikið ef horft er aftur til ársins 1961.  Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Fiskifrétta og vísað til Hagsjáar hagfræðideildar Landsbankans.

Tölur sem þessar ná einungis aftur til ársins 1961 þar sem gögn yfir verð helstu viðskiptamynta gagnvart íslensku krónunni ná ekki lengra aftur en til þess árs.

Næstmesta útflutningsverðmætið var árið 2015 en uppfrá því ári tók krónan að styrkjast verulega og lækkaði útflutningsverðmætið mælt í krónum töluvert. 

Hagsjáin gerir ráð fyrir því að veiðar verði minni á þessu ári og að verðmæti sjávarafurða verði það sömuleiðis, bæði í krónum og erlendri mynt. Þetta muni koma til vegna óvenjumikilla veiða á síðasta ári. Veiðarnar í fyrra hafi verið svo miklar vegna sjómannaverkfallsins 2017 og því að færa mátti hluta af aflaheimildum milli áranna 2017 og 2018 af sömu ástæðu. Einnig er óljóst hvort gefinn verði út kvóti til loðnuveiða á þessu ári, en útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna á síðasta ári.