Verð á þurrvöru hækkað töluvert frá því í haust – verð hækkaði oftast og mest í hagkaup

Þurrvörur, brauð, kex, sælgæti og snakk hækkaði mest í verði í flestum verslunum á átta mánaða tímabili frá hausti 2018 fram á sumar 2019. Þetta kemur fram í könnun verðlagseftirlits ASÍ, þar sem er greint frá því að finna hafi mátt verðhækkanir í öllum þeim vöruflokkum sem skoðaðir voru. Verð hækkaði oftast í Hagkaup, eða í 38 tilvikum af 49, en sjaldnast í Iceland, eða í 9 tilvikum af 49. Þá voru verðhækkanir einnig mestar í Hagkaup.

Í öðrum verslunum hækkaði verð í um 40 prósent tilfella eða í 21 tilvikum af 49 í Bónus, 22 tilvikum í Krónunni, 23 tilvikum í Nettó, 20 tilvikum í Fjarðarkaupum og 20 tilvikum í Kjörbúðinni.

Mestar verðhækkanir í Hagkaup

Lífskorn, brauð með tröllahöfrum og chia-fræjum frá Myllunni, hækkaði í öllum verslunum nema Iceland um 4-15 prósent. Hækkunin var lang mest hjá Hagkaup, 15 prósent. Ömmu flatkökur hækkuðu um 17 prósent í Hagkaup, sem er mesta einstaka hækkunin á brauðmeti og 7 prósent í Krónunni, en ekkert í Nettó, Fjarðarkaupum og Kjörbúðinni. Flatkökurnar fengust ekki í Bónus og Iceland.  

Pylsubrauð frá Myllunni hækkaði í öllum verslunum þar sem það fékkst. Mest var hækkunin 14 prósent í Nettó, Kjörbúðinni og Hagkaup, 8 prósent í Fjarðarkaupum, 5 prósent í Krónunni og 4 prósent í Iceland. Þá hækkaði Crawfords vanilllukex um 9-14 prósent, mest um 14 prósent í Hagkaup og Kjörbúðinni og 13 prósent í Nettó. Doritos ostasnakk hefur hækkað í fimm af sjö búðum um 5-30 prósent. Hækkunin nam 5 prósent í Bónus, Krónunni og Kjörbúðinni, 13 prósent í Fjarðarkaupum og 30 prósent í Hagkaup.

Drykkjarvörur hækka einnig í mörgum tilvikum. Verð á Senseo classic kaffipokum hækkaði um 3-13 prósent. Mest var hækkunin hjá Fjarðarkaupum um 13 prósent, 10 prósent hjá Hagkaup, 8 prósent hjá Nettó , 5 prósent hjá Bónus og 3 prósent hjá Krónunni. Kaffipokarnir hækkuðu ekkert í Iceland og voru ekki til í Kjörbúðinni. Þá hækkaði verð á Melroses te (25 pokar) um 27 prósent í Hagkaup, 15 prósent í Kjörbúðinni, 6 prósent í Bónus og 1 prósent í Krónunni. Tepokarnir hækkuðu ekkert í Iceland og Fjarðarkaup og voru ekki til í Nettó.

Mjólkurvörur í könnuninni hækka almennt minna en aðrir vöruflokkar að undanskildu hreinu KEA skyri sem hækkaði í öllum verslunum og námu hækkanirnar á bilinu 10-20 prósent. Mjólkurvörur hækkuðu þó í einhverjum tilfellum og oftast í Hagkaup eða í 11 tilfellum af 12.

Könnunin var gerð dagana 10. október 2018 og 3. júní 2019. Þær verslanir sem samanburðurinn náði til voru Bónus, Krónan, Hagkaup, Nettó, Fjarðarkaup, Iceland og Kjörbúðin.