Veldu réttan mat og borðaðu meira

Það yndislega við hollan, orkuríkan og góðan mat er að maður getur fengið sér aðeins meira af honum án þess að ásaka sjálfan sig fyrir óhóf, óreglu og linkind.

Stundum er talað um fimm-fæðulistann sem samanstendur af mat sem í öllum tilvikum eykur vellíðan, einbeitingu og starfsorku. Þetta eru grænkál, lax, lárperur, rauðrófur og já ... dökkt súkkulaði.

Þessar fæðutegundir fylla einna best á tankinn og eru sérstaklega hollar fyrir líkama og hug. 

Grænkálið lá oftast óhreyft í gamla daga, en er heitasta grænmetið í dag og það af ríkri ástæðu; ekki þarf nema einn bolla af grænkáli til að mæta dagsþörf af A-, C- og K-vítamíni, auk þess sem það inniheldur ákveðið andoxunarefni sem bætir sjónina.

Laxinn er stútfullur af Omega-3-fitusýrum sem kemur í veg fyrir ýmsa sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma, krabbamein og þunglyndi, auk þess að vera fullur af próteinum, D-vítamíni og hinu mikilvæga B12-vítamíni.

Lárperan, eða avókadó er uppfull af þeirri hollustu fitu sem mannlíkaminn getur innbyrt. Þessi ljúfi ávöxtur viðheldur góðu kólesteróljafnvægi og inniheldur trefjar, kalíum og C- og K-vítamín, en er þess utan sú fæða sem heldur fólki lengst og best frá snakki því hún slær svo vel á svengdina.

Rauðrófur innihalda endalaust andoxunarefni og varla er til annað það grænmeti sem eykur jafn mikið árangur líkamsæfinga og þessi blóðrauða fæða sem bráðsniðugt er að flysja í flögur, skella á bökunarpappírinn og strá salti og ólívuolíu yfir og baka í smástund; það er sko snakk.

Loks er það eftirréttur heilsunnar, dökkt súkkulaði til að fullnægja sætuþörfinni, en það styrkir bæði hjartað og lækkar blóðþrýstinginn - og vel að merkja, ekki hafa minna en 60% af kakói í stykkinu og helst meira.

Og svo er bara að borða nóg af þessu.