Vel hægt að byggja ódýrara húsnæði

Örn Tryggvi Johnsen, rekstrarstjóri ÞG verktaka er gestur Heimilisins:

Vel hægt að byggja ódýrara húsnæði

Það er vel hægt að byggja ódýrara húsnæði hér á landi en gert er nú um stundir að mati Arnar Tryggva Johnsen, rekstrarstjóra ÞG verktaka sem var einn af gestum Sigmundar Ernis í þættinum Heimilið á Hringbraut í gærkvöld.

Hann segir að þar verði líka allir að leggjast á eitt, verktakafyrirtækin einnig, en þó ekki síst sveitarfélögin sem haldi uppi of háu lóðarverði og hafi mörg hver ekki nægar lóðir í boði, en hvorutveggja sé þó nánast hjómið eitt í samanburði við skilmála kerfisins og skipulagskröfur sem ýti öllu verði upp svo nemi verulegum fjárhæðum. Og þess utan sé kerfið svifaseint og lítt lausnamiðað.

Fjölmörg dæmi séu um það að byggingarfyrirtæki geti náð íbúðarverði niður með minni skipulagskröfum og hagræðingu í hönnun mannvirkja - og sé Selfoss ágætt dæmi um það. Á þeim bænum séu ekki uppi sömu skipulagskvaðir og til dæmis í Reykjavík og lóðarverð sé þar ekki í líkingu við það sem tíðkist í höfuðborginni - og því geti ÞG verktakar boðið upp á íbúðir þar, samanburðarhæfar að öllu leyti við það besta í borginni, á 30 prósenta lægra verði en þekkist fyrir vestan fjall.

Heimilið er frumsýnt öll þriðjudagskvöld klukkan 20:00 og endursýntt í dag, en einnig aðgengilegt á vefnum hringbrautt.is undir flipanum sjónvarp.

Nýjast