Veiðistofn loðnu nær ekki lágmarksstærð

Veiðistofn loðnu við Íslandsmið er svo lítill að hann nær ekki þeirri lágmarksstærð sem þarf til þess að mælt sé með veiðum á yfirstandandi vertíð. Mælingar á stærð stofnsins fóru fram í byrjun árs og frekari mælingar eru ráðgerðar, í þeirri von að loðna skili sér á miðin um landið. RÚV.is greinir frá.

„Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem við sáum bæði í september og það sem farið var í desember þannig að þetta lítur ekkert sérstaklega vel út. Á sama tíma er ennþá von. Ef við horfum á það sem var fyrir tveimur árum þá var staðan ósköp svipuð og þá kom ganga inn á Íslandsmið síðar. Þannig að þó þetta líti ekki vel út þá er ekki endilega öll nótt úti enn,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, í samtali við RÚV.

Aðeins 214.000 tonn af kynþroska loðnu mældust á rannsóknaskipinu Árni Friðriksson og veiðiskipunum Aðalsteinn Jónsson og Börkur, sem er undir því magni sem þarf til að Hafrannsóknastofnun mæli með veiðum á yfirstandandi vertíð. Næstu mælingar eru áætlaðar strax í næstu viku.

„Vissulega ollu niðurstöðurnar vonbrigðum en við erum að reyna að vakta það sem er þarna. Meðan það er svoleiðis er hvorki hægt að útiloka né staðfesta að meira komi. Það voru að hluta til erfiðar aðstæður. Það var ís út af Norðvesturlandi þar sem búast mátti við að einhver loðna væri. Það getur verið að það sé eitthvað meira þar undir. Eins höfum við séð síðari ár að loðnan á það til að koma frekar seint inn á okkar mið. Þannig að við erum ekki búin að útiloka þetta ennþá.“ segir Þorsteinn einnig.