Veftorg fyrir tæknistörf opnað

„Við fáum reglulega pósta frá sérfræðingum sem hafa áhuga á að flytja til Íslands til að vinna í tæknifyrirtækjum.“

Þetta segir Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, ritstjóri og einn stofnenda Northstack við Viðskiptablaðið í dag. Northstack opnaði starfatorg á vefnum í morgun.

„Á sama tíma er enginn vettvangur fyrir fyrirtæki í tæknibransanum á Íslandi að auglýsa sérstaklega eftir fólki sem er að leita að störfum í þeim bransa,“ segir Kristinn.

Hann segir stóran hluta af þessu að hafa torgið á ensku því stór hluti af þeim sem eru í þessum bransa á Íslandi er enskumælandi og ekki sé óalgengt að innra tungumál tæknifyrirtækja á Íslandi sé enska.

Kristinn gerir ráð fyrir að 20 til 25 störf verði skráð þegar vefurinn opnar og fyrirtækin átta til tíu, blanda af tæknifyrirtækjum og sprotum.