Vatnsbúskapur Landsvirkjunar lakari en fyrir tveimur árum

Nýtt vatnsár:

Vatnsbúskapur Landsvirkjunar lakari en fyrir tveimur árum

Vatnsbúskapur Landsvirkjunar í byrjun nýs vatnsárs 1. október er nokkru lakari en hann hefur verið undanfarin tvö ár, segir í frétt Landsvirkjunar. og að ágústmánuður hafi verið kaldur á landsvísu, sá kaldasti síðan 2005 eða jafnvel 1993 samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.

Hjá Landsvirkjun segir enn fremur:

Nýliðið vatnsár hófst með góðri stöðu í miðlunarlónum og miklar haustrigningar leiddu til þess að ekki þurfti að nýta vatn úr miðlunarlónum fyrr en í byrjun nóvember. Innrennsli síðasta vetur var í meðallagi og sumarið var úrkomusamt framan af. Jökulbráð hófst að marki fyrri hluta júlí og öll miðlunarlón voru full snemma, eða í byrjun ágúst.

Ágústmánuður var kaldur á landsvísu, sá kaldasti síðan 2005 eða jafnvel 1993 samkvæmt mælingum Veðurstofunnar og sama má segja um september. Nú í upphafi nýs vatnsárs er niðurdráttur hafinn úr öllum miðlunarlónum  fyrirtækisins, um mánuði fyrr en á síðasta vatnsári.

Horfur fyrir rekstur kerfisins og afhendingu orku eru góðar. Ný virkjun á Þeistareykjum kom í rekstur snemma árs og stækkun Búrfellsstöðvar á miðju ári.  Landsvirkjun er því í góðri stöðu að tryggja orkuafhendingu til viðskiptavina sinna á komandi vatnsári, en ef innrennsli verður undir meðallagi í haust getur það haft áhrif á framboð orku frá fyrirtækinu.

Nýtt vatnsár hefst hjá Landsvirkjun 1. október ár hvert, en um það leyti eru miðlanir yfirleitt í hæstu stöðu eftir vorleysingar, jöklabráð sumarsins og upphaf haustrigninga. Þegar haustrigningum lýkur og vetur gengur í garð er byrjað að nýta miðlunarforðann. Vatn frá miðlunum stendur undir um helmingi af orkuvinnslu Landsvirkjunar yfir veturinn og fram á vor.

Hægt er að fylgjast með vatnshæð lóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar hér.  

 

Nýjast