Varist að oftúlka dóm MDE

Varist að oftúlka dóm MDE

Mynd: Háskóli Íslands
Mynd: Háskóli Íslands

Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, segir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu mikilvægan en varar við því að hann sé oftúlkaður og að hann breyti ekki dómsniðurstöðum Landsréttar. Þetta sagði Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Það er algjörlega yfirdrifin lýsing á ástandi Landsréttar að halda því fram að öll þau mál sem dómararnir fjórir dæmdu, sem ráðherra skipaði í andstöðu við niðurstöðu hæfnisnefndar, séu í uppnámi,“ segir Björg.

Björg segir að í dómnum sé kveðið á um það að kærandi, Guðmundur Andri Ástráðsson, eigi rétt á endurupptöku. Í máli Guðmundar Andra hafi verið um að ræða tiltölulega einfalt mál, þ.e. ökuleyfissviptingu, og benti Björg á að ef hann krefðist endurupptöku á málinu og að nýr dómari myndi dæma í því væru hverfandi líkur á því að dómsniðurstaðan yrði önnur.

„Það eru engin tengsl á milli ágallans á skipun á þessum dómara [Arnfríði Einarsdóttur] og efnislegrar niðurstöðu í þessu máli. Það er ekkert í dómi Mannréttindadómstólsins sem gefur til kynna að það megi véfengja niðurstöðuna sem slíka. Enda er ekki einu sinni fjallað um það hvort maðurinn fékk réttláta málsmeðferð fyrir sjálfstæðum dómstóli,“ segir Björg.  

Hún segir alla þá sem hafi átt mál sem dómararnir hafi dæmt í væntanlega geta skoðað endurupptöku á málum sínum. Líkt og í tilfelli Guðmundar Andra telur Björg hins vegar hverfandi líkur á að þeir myndu fá einhverja nýja dómsúrlausn. „Ég býst við því að það verði ekkert mjög margar endurupptökubeiðnir, þótt menn eigi rétt á að fá mál sín endurupptekin,“ segir Björg og tekur fram að hún vilji binda áhrif af dómnum við þessa fjóra tilteknu dómara. 

Nýjast