Varð aldrei mamma, en er samt amma

Glæpasagnaprinsessan Lilja Sigurðardóttir í Mannamáli í kvöld:

Varð aldrei mamma, en er samt amma

Hún lifði sígaunalífi sem krakki og elti óra foreldra sinna um Ísland og allar koppagrundirnar úti í heimi, hippanna og bóhemanna sem þau voru, en lífið á flakki kenndi henni bæði víðsýni og umburðarlyndi, svo og einstaka aðlögunarhæfni.

Það er glæpasagnaprinsessan Lilja Sigurðardóttir sem hér talar en hún er gestur Sigmundar Ernis í einstaklega skemmtilegu og persónulegu samtali þeirra í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut í kvöld þar sem hún ræðir bókaskrifin sín, margverðlaunuð og rómuð bæði heima og erlendis - og snurfusuð að hætti pjattrófanna á Bretlandseyjum, en líka uppeldið, þar á meðal tippaáhuga föður hennar, sagnfræðingsins Sigurðar Hjartarsonar sem leiddi til þess að stelpan hans bjó til feiknlega vel niðurvaxinn spýtukarl í smíðatíma í barnaskóla sem vakti augljósa hneykslan kennara hennar, ekki síður en ósk hennar um að tíu ára bekkurinn læsi Kommúnistaávarpið í næsta lestrarátaki, bara si sona.

Hún kom ung út úr skápnum, sextán ára villingurinn á þeim tíma þegar vinir hennar Páll Óskar og Maríus Sverris voru að viðra kynhneigð sína, allt saman yngra fólk en fram að því lét heiminn vita af hinsegin eðli sínu - og hún rifjar upp þennan tíma á einstaklega hispurslausan hátt, þar á meðal þegar hún fór nítján ára gömum að eltast við Möggu Pálu, fimmtán árum eldri konuna, sem vildi ekkert með Lilju hafa í byrjun sakir aldurs, en svo fór þó að þær náðu saman að lokum og hafa verið í tygjum hvor við aðra - í alls konar sambúðarformi - í 27 ár. Sjálf sé hún ekki mamma, en líti á það sem forréttindi að vera amma allra barna dóttur Möggu Pálu; það sé svo æðislega gefandi.

Mannamál, svo einstaklega manneskjulegt, hefst klukkan 20:00 í kvöld. 

Nýjast