4 ára drengur í lífshættu - herdís: „hann hefði getað dáið [...] móðirin heyrði óhljóð í syni sínum“

„Nýverið hafði kona samband við mig og sagði mér frá atviki sem hún lenti í með 4 ára son sinn. Sonur hennar […] hafði tekið hárteygju og sett yfir höfuðið á sér með þeim afleiðingum að hún þrengdi að hálsi hans og gat hann ekki tekið hana af sér aftur.“

Á þessum orðum hefst færsla Herdísar Storgaard, hjúkrunarfræðings og sérfræðings í slysavörnum, á Facebook-síðunni Árvekni – Slysavarnir barna, sem hún heldur úti. Herdís rekur einnig Miðstöð slysavarna barna, þar sem hún heldur reglulega námskeið fyrir foreldra.

Hún lýsir því hvernig pilturinn hafi verið orðinn talsvert meðtekinn af atvikinu þegar móður hans tókst að draga teygjuna upp á ný og fjarlægja. „Það hefði ekki mátt spyrja að leikslokum hefði hún ekki verið stödd í sama herbergi og barnið þegar atvikið varð.“

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Herdís að móðirin hafi verið að koma börnunum sínum tveimur í háttinn og hafi verið að bursta tennurnar á dóttur sinni þegar sonur hennar, sem var fyrir aftan hana, náði í hárteygju hennar sem hafi legið á bað­her­berginu. Móðirin heyrði fljótlega óhljóð í syni sínum og sneri sér við, þar sem hún sá hann reyna að fjarlægja teygjuna, en honum var ekki að takast það. „Hann hefur þá sjálf­sagt sjálfur farið í fát,“ segir Herdís.

Drengurinn var orðinn vel rauður í framan þegar móðirin þurfti að rífa í teygjuna og toga hana af syni sínum. „Hann hefði alveg getað dáið. Ég hef aldrei heyrt af svona til­vikum áður. Mér hafa ekki borist til­kynningar um þetta áður,“ segir hún.

Herdís segist ekki vita nákvæmlega um hvernig teygju hafi verið að ræða en að hún hljóti að hafa verið stór. „Ég er búin að vera að skoða teygjur og það eru sumar sem virki­lega komast yfir hausinn á börnum, svona gorma­teygjur, sem verða svo­lítið stórar. Þetta hlýtur að hafa verið stór teygja svo hún kæmist yfir hausinn á honum.“ Herdís segir að lokum:

Hún bendir að lokum á að börn á aldrinum eins til fjögurra og hálfs árs séu á nokkurs konar hættualdri og að því verði foreldrar að hafa augun hjá sér. „Börn eru forvitin og horfa á heiminn á sinn hátt […] og eru stöðugt að prófa sig áfram[,] enda er það hluti af eðlilegum þroska þeirra. Þetta atvik sýnir okkur en[n] og aftur að sakleysislegir hlutir á heimilinu geta valdið alvarlegum áverkum ef ekki er að gáð.“