Var Sigríði í raun vísað úr ríkisstjórninni af pólitískri nauðsyn?

Egill Helgason skrifar á eyjan.is

Var Sigríði í raun vísað úr ríkisstjórninni af pólitískri nauðsyn?

Síðastliðinn sólarhring hefur litið út fyrir að Sigríður Á. Andersen ætlaði ekki að fara úr ríkisstjórninni vegna úrskurðar Mannréttindadómstólsins. Hún tók upp ákafa málsvörn fyrir sjálfa sig og Birgir Ármannsson þingflokksformaður – sem oft er sendur á vettvang til að kæfa elda – tók líka til varna fyrir hana. Aðrir í þingflokknum þögðu reyndar.

Svo kemur Katrín Jakobsdóttir heim frá New York. Ræðir við Bjarna Benediktsson og þvínæstfólk sitt í VG. Síðan berst undarlega orðuð tilkynning um að Sigríður dragi sig í hlé sem ráðherra

Það var eins og fjölmiðlamenn yrðu ringlaðir við þetta orðalag – var þetta þá ekki afsögn heldur bara frí þangað til öldurnar lægir? Minna má á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þá var forsætisráðherra, tók um tíma við dómsmálunum af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar lekamálið stóð sem hæst. Þá var það kynnt sem tímabundin ráðstöfun.

En nei – Sigríður er ekki lengur dómsmálaráðherra, einhver annar tekur við embættinu. Eða er það ekki niðurstaðan sem var knúin fram í dag?

En líkt og áður segir, þangað til fyrr í dag var Sigríður ekkert á förum. Er þá máski hægt að segja að hún hafi verið rekin úr ríkisstjórninni? Að Katrín Jakobsdóttir hafi gert Bjarna Benediktssyni grein fyrir að stjórnarsamstarfið væri í uppnámi ef Sigríður léti sig ekki hverfa úr ráðherrastóli?

Nýjast