Ólafía: 10 mánaða starfslokasamningur?

Morgunblaðið greindi frá því í gær að laun og bifreiðastyrkir til formanna VR á árinu 2017 hafi numið 26,3 milljónum króna og hækkað úr 17 milljónum króna frá árinu áður. Hringbraut.is fjallaði um málið í gær og benti réttilega á að þessi kostnaðarliður hjá VR hafi hækkað um 55% en skýrt var tekið fram að ekki kæmi fram hvernig þessi kostnaður skiptist milli Ólafíu fyrrverandi formanns og Ragnars Þórs Ingólfssonar sem tók við af henni vorið 2017.

Nú hefur Ragnar Þór tjáð sig og heldur því fram að verið sé að reyna að koma höggi á sig. Ef VR hafði upplýst í ársskýrslu sinni hvernig kostnaðurinn skiptist milli Ólafíu og Ragnars Þórs, hefði enginn þurft að velkjast í vafa um starfskjör formanna. En það var ekki gert. Spyrja má hvers vegna svo sjálfsagðar upplýsingar komu þar ekki fram.

Ef marka má útskýringar Ragnars Þórs varðandi launakjör hans sjálfs, má ljóst vera að Ólafía B. Rafnsdóttir hefur fengið myndarlegan starfslokasamning hjá VR sem virðist jafngilda 10 eða 11 mánaða launum hennar. VR verður að upplýsa hvernig starfslokasamningur hennar var og hvort það sé almenn regla í launþegahreyfingunni að slíkir samningar séu gerðir við formenn félaga.

Loks er mikilvægt að fram komi hvort í gildi sé samkomulag stjórnar VR við Ragnar Þór Ingólfsson um starfslokasamning þegar hann lætur af starfi formanns VR. Kjörtímabili Ragnars Þórs Ingólfssonar lýkur eftir eitt ár.