Vafasöm fjármálastjórn hjá formanni flokki fólksins?

Karl Gauti Hjaltason, sem rekinn var úr Flokki fólksins, í kjölfar Klaustursmálsins, segir óeðlilegt að Inga Sæland, formaður flokksins, sé prókúruhafi hans og sé að vasast í fjármálum flokksins. Þá segir hann að peningum flokksins sé varið í launagreiðslur til ættingja hennar.

Þetta kemur fram í grein Karls Gauta í Morgunblaðinu í dag. Þar fer hann yfir verkefni sín og stjórnmálaviðburði á síðasta ári. Um Klaustursmálið, viðskilnaðinn við Flokk fólksins og meint vafasöm fjármál flokksins skrifar Karl Gauti:

„Síðla í nóvember, eftir að ég hafði lokið þátttöku minni við aðra umræðu fjárlaga, sat ég undir orðræðu sem spannst í hópi samstarfsmanna og ratað hefur í fjölmiðla. Ég hef beðist afsökunar á þeim mistökum að sitja of lengi undir þessum umræðum.

Einhverjir hafa staldrað við ummæli mín við þetta tækifæri um hæfileika formanns Flokks fólksins til að leiða stjórnmálaflokk. Örskömmu síðar rak stjórn flokksins mig við annan mann úr flokknum. Þessa gagnrýni hafði ég, á því ári sem ég hef verið í flokknum, margítrekað látið í ljósi beint við formanninn, meðal annars á vettvangi þingflokksins og í stjórn flokksins, þar sem ég var kjörinn með flestum atkvæðum allra stjórnarmanna á landsfundi flokksins í september sl.