Úttekt - hvenær segir ráðherra af sér?

Öðru hverju berast fregnir af því að ráðherra hér eða þar segi af sér og hverfi úr embætti.  Svo undarlegt sem það má teljast gerist þetta venjulega eftir einhverjar yfirsjónir sem Íslendingum þættu varla tíðindum sæta.

Hér skulu rifjuð upp þrjú tilvik.

Tíunda desember 2013 sagði Martin Bödskov af sér embætti dómsmálaráðherra Danmerkur. Í frétt RÚV um afsögnina segir að hann hafi orðið að segja af sér \"... eftir að hafa verið í þriggja tíma yfirheyrslum í dómsmálanefnd þingsins. Bødskov sagði ósatt um ástæður þess að heimsókn nefndarinnar til Kristjaníu var aflýst. Hann sagði þá að hætt hefði verið við vegna þess að lögreglustjórinn kæmist ekki með. Hann viðurkenndi í gær að raunveruleg ástæða hefði verið að lögreglan hefði haft áhyggjur af því að geta ekki tryggt öryggi Piu Kjærsgaard, fyrrverandi formanns Danska þjóðarflokksins. Í Danmörku líta þingmenn það mjög alvarlegum augum ef þingmönnum er sagt ósatt og það kostaði Bødskov starfið.\"

Þrettánda ágúst síðastliðinn sagði í fyrirsögn á Vísi: \"Sænskur ráðherra segir af sér vegna ölvunaraksturs.\" Þetta var Aida Hadzialic, hún mældist með 0,2 prómill í blóðinu.

Mál Monu Sahlin er sérlega athyglisvert. Hún var komin í fremstu forystusveit sænska Jafnaðarmannaflokksins, varaforsætisráðherra í stjórn Ingvars Carlsson 1994 og eftir að Carlsson tilkynnti haustið 1995 að hann hygðist hætta var hún eini kandidatinn sem gaf kost á sér til formennsku. Þá varð það að blaðið Expressen greindi frá því að þegar Sahlin var vinnumálaráðherra 1990-1991 hafi hún notað kreditkort ráðuneytisins full frjálslega í eigin þágu, semsagt til einkaneyslu fyrir samtals 53.174 krónur (sænskar). Þetta var kallað \"Tobleronemálið\" og sætti rannsókn sem sýndi ekki fram á að neitt brot hefði verið framið. Mona Sahlin hætti þó við formannsframboðið, sagði af sér ráðherraembætti og innan árs einnig þingmennsku. Hún kom síðar aftur inn á pólitíska sviðið 1998 sem ráðherra vinnumarkaðsmála og formaður Jafnaðarmannaflokksins 2007.

Samanburður í háskólaritgerð

Guðmundur Friðrik Magnússon vann lokaritgerð við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og kallaðist hún \"Afsagnir ráðherra: Samanburður milli Íslands og Svíþjóðar 1970 - 2009.\" Í útdrætti, sem birtur er á vefnum Skemmunni ( http://skemman.is/handle/1946/2301 ) segir m.a.: \"Niðurstöður eru m.a. þær að lagabókstafurinn sé skýrari í Svíþjóð en á Íslandi um ráðherraábyrgð og aðhald með stjórnvöldum meira. Ráðherrar eru bundnir sterkari aga innan ríkisstjórna í Svíþjóð og hafa minna sjálfstæði en á Íslandi. Pólitísk þrýstiöfl sem veita stjórnvöldum aðhald hafa einnig verið sterkari í Svíþjóð.\" http://hdl.handle.net/1946/2301

Afsagnir íslenskra ráðherra

Skyldu þá íslenskir ráðherrar hafa tilefni til að segja af sér? Og þá hvers vegna? Ekki eru mörg dæmi í sögunni um afsagnir íslenskra ráðherra, Wikipedia tilgreinir þessi:

1923 segir Magnús Jónsson af sér embætti fjármálaráðherra eftir að hafa verið gagnrýndur á Alþingi.

1932 segir Magnús Guðmundsson dómsmálaráðherra af sér eftir að Hermann Jónasson hafði dæmt hann sekan um l-gbrot, Hæstiréttur sýknaði Magnús og tók hann þá aftur við embætti.

1987 segir Albert Guðmundsson af sér embætti iðnaðarráðherra vegna greiðslna sem fyrirtæki hans hafði fengið frá Hafskipum, en ekki talið fram.

1994 sagði Guðmundur Árni Stefánsson af sér embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eftir harða gagnrýni á embættisfærslu hans í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Þá má nefna að ráðherrar hafa sagt af sér af persónulegum ástæðum eða hreinum pólitískum, t.d. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Ögmundur Jónasson (átök um stefnu í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur), og af heilsufarsástæðum t.d. Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Leki, Tortóla og Panamaskjöl

Í núverandi ríkisstjórn hafa tveir ráðherrar sagt af sér, sem er einsdæmi í Íslandssögunni. Það gerðist í miklum átökum. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra í kjölfar lekamálsins og eftir mikinn þrýsing bæði innan ríkisstjórnar og frá samfélaginu t.d. í gegnum fjölmiðla.

Stærsti dynkurinn varð þó við birtingu hinna svonefndu Panamaskjala, sem lekið var af Wikileaks. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér embætti forsætisráðherra eftir mestu mótmæli síðari tíma þegar hann varð uppvís að því að hafa leynt eignarhaldi sínu og konu sinnar  á aflandsfélaginu Wintris sem skráð var í skattaskjólinu Tortola á Bresku Jómfrúreyjum fyrir tilstilli panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca. Wintris var í hópi kröfuhafa í þrotabú íslensku bankanna, kröfuhafa sem íslenska ríkisstjórnin átti í erfiðum samningaviðræðum við um háar fjárhæðir. Ráðherrann hafði því setið beggja megin við borðið og spilað gegn hagsmunum þjóðarinnar sem honum bar þó að verja sem forsætisráðherra.

Í ljós kom einnig að Panamaskjölin upplýstu um eign tveggja annarra ráðherra í skattakjólum, þeirra Ólafar Nordal innanríkisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Þau hafa bæði reynt að gera sem minnst úr málinu og virðast treysta á að almenningur gleymi því fljótt.

Kannski Ólöfu verði að þeirri ósk sinni, hún virðist njóta mikillar samúðar og fyrirgefningarvilja fólks, en erfiðara gæti verið fyrir fjármálaráðherrann að svæfa sitt mál, hann á nefnilega aðra og litríkari fjármálagerningasögu sem skattaskjólsmálið varpar óvæginni og endurnýjaðri birtu á. Fyrir ekki svo löngu, nánar tiltekið þann 14. maí síðastliðinn, þegar Panamaskjölin voru enn fersk í fréttum, birtist hér á Hringbraut all ítarleg samantekt á skrautlegri fortíð fjármálaráðherrans í fjármálum http://www.hringbraut.is/frettir/segir-bjarni-af-ser#.V7s-rSDlRcA.facebook

 

Þar segir meðal annars: \"Bjarni Benediktsson er ráðherra fjármála og þar með einnig skattamála. Ef einhver þarf að vera gjörsamlega hafinn yfir alla gagnrýni þegar kemur af málum af þessu tagi þá er það fjármála-og skattamálaráðherra. Það er Bjarni alls ekki. Það er alveg nóg að hann hafi verið með reikninga í skattaskjólum og að hans nánasta fólk sé þar einnig til þess að hann ætti að sjá sóma sinn í að víkja. Skattamálaráðherra með kámuga fortíð í skattamálum er eitthvað sem kjósendur geta ekki látið bjóða sér upp á. Það er siðlaust og ekki boðlegt.

Ekki er nóg með að Tortólamálin hvíli sem skuggi yfir Bjarna Benediktssyni. Stundin rifjaði upp fyrr í þessum mánuði afskriftir sem tengdar eru Bjarna Benediktssyni og föður hans, Benedikt Sveinssyni.

Upprifjun Stundarinnar þar sem í fyrirsögn kemur fram að 120 milljarðar króna hafi verið afskrifaðir vegna þeirra:

  • “BNT. Móðurfélag olíufélagsins N1. Benedikt hluthafi, Bjarni stjórnarformaður. 4,3 milljarða kröfur í þrotabúið – engar eignir.
  • Umtak fasteignafélag N1. Kröfuhafi félagsins, Arion banki, færði niður rúmlega 20 milljarða skuldir árið 2011.
  • Fjárfestingarfélagið Máttur. Benedikt hluthafi. Bjarni stjórnarmaður. 21 milljarðs króna kröfur færðar niður eftir gjaldþrot 2010.
  • IAG Holding (áður Naust). Benedikt hluthafi. Bjarni stjórnarmaður. 3,5 milljarða króna kröfur færðar niður eftir gjaldþrot árið 2009.
  • Földungur (áður Vafningur). Benedikt hluthafi í gegnum BNT og Mátt. Bjarni Stjórnarmaður í Mætti og þátttakandi í viðskiptum Vafnings árið 2008. Yfirtekið af skilanefnd Glitnis. Skuldar 48 milljarða króna og á litlar eignir.
  • Þáttur International. Hluthafi í Glitni fram að hruni. Benedikt hluthafi í gegnum Mátt og BNT. Bjarni stjórnarmaður í Mætti og þátttakandi í viðskiptum Þáttar International 2008. Gjaldþrota. 24 milljarða kröfur færðar niður eftir gjaldþrot.”

Hverjir töpuðu á þessum umsvifum þeirra feðga? Hverjir töpuðu peningum á glæfralegum gjörningum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og félaga hans? Jú, það voru margvíslegir kröfuhafar sem sátu eftir með sárt ennið. Þar á meðal ekki síst lífeyrissjóðir sem eru í eigu fólksins í landinu, kjósenda.

Það er furðulegt að þetta skuli ekki fá meiri umfjöllun fjölmiðla. Er það vísvitandi þöggun eða hafa þessar alvarlegu staðreyndir bara farið fram hjá þeim?

Allar þessar staðreyndir liggja fyrir og þeim verður haldið til haga. Um það hlýtur Bjarni Benediktsson að hugsa þessar vikur meðan hann veltir því fyrir sér hvort hann ætlar að sækjast eftir áframhaldandi ábyrgðarhlutverki í stjórnmálum Íslands.

Kjósendur munu vega og meta glæfralega gjörninga og vafninga Bjarna Benediktssonar áður en þeir greiða atkvæði. Kjósendur hafa síðasta orðið.\"

 

Úttektir eru á ábyrgð Útgefanda.