Útilokar ekki að snúa aftur í pólitíkina

Einn áhrifamesti stjórnmálamaður síðustu áratuga, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir settist í gráa stólinn gegnt Sigmundi Erni í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í gærkvöld og fór þar yfir pólitískan feril sinn af miklu hispursleysi.

Athygli vekur í viðtalinu, sem hægt er að skoða hér á vef Hringbrautar, að hún útilokar ekki frekari afskipti af íslenskum stjórnmálum, en segir þar jafnframt að hún sé ekki endilega á leið þangað á næstunni. Hún uni enda hag sínum afskaplega vel úti í Istanbúl þar sem hún sinnir áhugaverðu starfi á vegum UN Women sem hún hefur helgað sig allt frá því hún hætti í stjórnmálum eftir skyndileg veikindi á sama tíma og efnahagsskreppan skall á hér á landi.

Hún segir að það hafi ef til vill verið mistök sín að efna til samstarfs með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn vorið 2007, en hún hafi þá haldið að gamli valdaflokkurinn væri að ganga í endurnýjun lífdaga með nýrri forystu, en svo hafi hún komist að því að stofnanir Sjálfstæðisflokksins hefðu ennþá verið ennþá jafn fyrirferðarmiklar og áður - og það hafi verið bjartsýni af sinni hálfu að samstarf við Samfylkinguna myndi breyta þar einhverju, hinn flokkurinn hafi einfaldlega verið orðinn of samgróinn valdakerfinu í landinu.

Hún er sár samflokksmönnum sínum, sumum hverjum, fyrir að ætla að draga hana fyrir landsdóm og skilur ekki enn röksemdarfærsluna fyrir því, enda hafi komið skýrt fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að hún hefði í ráðherratíð sinni fram til 2009 ekki brugðist skyldum sínum, þótt vissulega sjái hún það í dag að hún jafnt og aðrir landsmenn hefðu átt að vera betur á verði þegar ískenska hagkerfið ofhitnaði á tiltöluleega stuttum tíma. Þar sé ekki hægtt að benda á hana eina og heldur ekki Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra sem hún segist bera hlýjan hug til eftir samstarfið í ríkisstjórn.

Mannamálsviðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu er endursýnt á Hringbraut í dag, en sem fyrr segir er hægt að skoða það á vef stöðvarinnar, jafnt í heild sinni sem og í klippum.