Útilokar ekki að hvetja til sniðgöngu á vörum

Útilokar ekki að hvetja til sniðgöngu á vörum

Drífa Snædal, forseti ASÍ
Drífa Snædal, forseti ASÍ

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, útilokar ekki að almenningur verði hvattur til sniðgöngu á vörum frá fyrirtækjum sem hækka vöruverð í framhaldi af undirritun kjarasamninga.

„Það er ekki loku fyrir það skotið að það verði hvatt til þess að snið­ganga fyrir­tæki sem sýna ekki á­byrgð,“ sagði hún í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Heildverslunin ÍSAM, sem á Mylluna, Frón, Kexsmiðjuna og Ora, og flytur auk þess inn mörg af þekktustu vörumerkjum heims, boðaði um helgina 3,9 prósenta hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna, fari svo að kjarasamningar verði samþykktir í atkvæðagreiðslu.

„Mark­mið þessara samninga er að gefa tæki­færi til vaxta­lækkunar, stemma stigu við verð­bólgu og verka­lýðs­hreyfingin sýndi mjög mikla á­byrgð við gerð kjara­samninga. Þegar fyrir­tæki eru að fara að hækka hjá sér vöru­verð þá eru þau að vinna gegn markmiðum samninga, hreint og klárt,“ bætti Drífa við.

Hún sagði verðlagseftirlit ASÍ vera mjög virkt en að það yrði eflt enn meira verði kjarasamningarnir samþykktir. „Fyrirtæki verða líka að hafa það í huga að neytendavitund er að vaxa mjög mikið þannig að fólk er meðvitaðra um það en áður við hvaða fyrirtæki það er að versla. En ég reikna að með þvi að við munum virkja verðlagseftirlit ASÍ mjög hressilega og upplýsa okkar félagsmenn um það hvaða fyrirtæki sýna ábyrgð og hver ekki.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var einnig gestur í Morgunútvarpinu, þar sem hann sagði skilaboðin frá ÍSAM misráðin. „Þessir samningar eru reistir á forsendum um að halda verðbólgu niðri, Um að kaupmáttur aukist, um að vaxtastigið lækki. Það gerist að sjálfsögðu ekki með því að launahækkanir fari beint út í verðlagið. Þannig að við höfum hvatt okkar félagsmenn til þess að, og ég held að þeir hugsi flestir á þeim nótum, horfa frekar til leiða til að lækka kostnað hjá sér með einhverjum öðrum ráðum en að velta hækkunum út í verðlagið,“ sagði hann.

Nýjast