Útgerðin þyrfti ekki að bíða svona lengi

Þessi vinnubrögð eru á margan máta dæmigerð fyrir afstöðu ríkisins - og kerfisins sjálfs til öryrkja. Ég er ansi hrædd um að til dæmis útgerðin í landinu þyrfti ekki að bíða svona lengi eftir peningum sem hún ætti inni hjá ríkinu eins og reyndin er í okkar tilviki.

Svona talar Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands sem sendir ríkisstjórninni kaldar kveðjur í fréttaþættinum 21 í kvöld, en tíu árum eftir að bandalagið benti ríkisvaldinu á að það skerti lífeyri öryrkja, búsettra erlendis á einhverju skeiði lífsins, langt umfram það sem reglur kvæðu á um, væri enn ekki byrjað að endurgreiða þeim oftökuna. Hér væri um gríðarlega miklar fjárhæðir að ræða, liklega um 500 milljónir á ári fyrir um eitt þúsund öryrkja, sem margir hverjir hefðu þurft að leita til félagsþjónustu sveitarfélaga vegna þess hversu þeir voru hart leiknir af kerfinu í þessum efnum.

Og þrátt fyrir að Umboðsmaður Alþingis, Félagsmálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins væru loksins öll búin að viðurkenna vitleysuna væri enn ekki byrjað að vinda ofan af henni, líklega vegna þess að málið strandar allt í fjármálaráðuneytinu, segir Þuríður Harpa og óttast að þar á bæ bregði menn fyrir sig fyrningarreglunni og neiti að greiða oftökuna nema fjögur ár aftur í tímann. Einstaklingar ættu alltaf undir högg að sækja í svona málum; ef þeir hefðu fengið ofgreitt frá ríkinu í 10 ár myndu þeir þurfa að greiða allt til baka, en ef ríkið oftekur af einstaklingum í áratug hefði það sjálfdæmi um hvað það þyrfti að greiða mikið til baka.

Viðtalið við Þuríði Hörpu er að finna í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.