Uppþvottaburstar verða gerðir upptækir á vellinum í kvöld

Víðir Reynisson, öryggisstjóri Knattspyrnusambands Íslands, segir að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gæti mögulega þurft að spila á tómum velli ef stuðningsmenn Íslands verða uppvísir að kynþáttaníði, eins og með því að mæta með uppþvottabursta á leikinn í kvöld. Starfsfólk KSÍ mun taka alla bursta af öllum áhorfendum sem mæta á leikinn í kvöld. Þetta kemur fram í fréttum RÚV um málið.
 
Koma tyrkneska landsliðsins til landsins hefur vakið gífurlega athygli, ekki fyrir að spila fótbolta, heldur bæði fyrir svokallað þvottaburstamál og meinta töf landsliðsmanna Tyrklands á Keflavíkurflugvelli í gær. Hringbraut greindi frá því í gær að yfirlýsing Guðlaugar Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, var ekki í samræmi við yfirlýsingu tyrkneska stjórnvalda um töf landsliðsins á flugvellinum. Sagði Guðlaugur Þór að beiðnin hafi eingöngu borist nokkrum klukkustundum fyrir komu tyrkenska landsliðsins, en tyrknesk yfirvöld segjast hafa sent beiðni um flýtimeðferð þremur dögum fyrir komu þeirra.
 
Í samtali við RÚV segir Víðir að allir uppþvottaburstar verði gerðir upptækir fyrir utan sem innan leikvangsins. „Við munum taka allt sem getur flokkast sem kynþáttaníð eða annað slíkt af stuðningsmönnum, hvaða liða sem það er. Það er mikill vilji í knattspyrnuhreyfingunni að koma í veg fyrir slíkt. Og við munum ganga hart á eftir því í dag ef ástæða er til.“ 
 
Víðir segir að komist fólk inn á völlinn með uppþvottabursta geti það haft afleiðingar fyrir KSÍ. „Ef að brotið telst alvarlegt þá getur það verið allt frá því að vera háar sektir yfir jafnvel í það að við þurfum að spila leik fyrir luktum dyrum það fer eftir því hvernig UEFA metur brotið. En kynþáttaníð eru talin mjög alvarleg brot og mörg lið hafa þurft að spila sína heimaleiki fyrir luktum dyrum.“
 

Þá hefur tyrkneskur hakkarahópur gert ítrekaðar árásir á vef KSÍ, en hópurinn segir það hefnd vegna framkomu Íslendinga við tyrkneska landsliðið.