Uppsögn væri fullkomin katastrófa

„Ég held að það væri bara fullkomin katastrófa. Að missa stöðuna innan innri markaðarins. Þetta setur auðvitað í uppnám alla sem eru núna að vinna og læra erlendis og setur viðskiptasambandið í uppnám. Evrópa er auðvitað mjög mikilvægur markaður fyrir íslensk fyrirtæki. Það þarf þá að fara að semja um það allt upp á nýtt,“ segir Davíð Þorláksson, forstöðumaður sam­keppn­is­hæfnisviðs Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, aðspurður um hvað myndi gerast ef Ísland myndi segja upp EES samningnum.

Davíð og Ólafur Þ. Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem þeir ræða EES samninginn.

25 ár eru liðin síðan Alþingi samþykkti samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, þ.e. að frjálsu flæði vöru, þjónustu og fjármagns á svæði þar sem búa yfir 500 milljónir manna í 30 ríkjum. Jafnframt tryggir samningurinn borgurum aðildarríkjanna rétt til dvalar, atvinnu og náms hvar sem er innan svæðisins.

Með EES-samningnum fengu EFTA/EES-ríkin aðgang að innri markaðnum gegn því að skuldbinda sig til að innleiða í landslög þær grundvallarreglur sem markaðurinn byggist á sem og þær afleiddu reglur sem eru settar í þeim tilgangi að mynda einsleitt efnahagssvæði.

„Það má heldur ekki gleyma því að þegar verið var að semja um samninginn þá voru ekki bara þau lönd sem eru núna í þessu: Ísland, Noregur, Liechtenstein. Svisslendingar og Svíar voru með í þessum viðræðum. Síðan ganga Svíar inn og Svisslendingar ákveða að vera ekki með en það auðvitað hafði þau áhrif að það var miklu meiri þungi okkar megin í samningnum. Ég held að ef samningurinn væri tekinn upp núna þá er ég ekki viss um að hann myndi batna fyrir okkur. Ég held að við höfum fengið miklu betri „díl“ en við í rauninni áttum skilið. Þannig að ég held að við ættum að gera okkar allra besta í því að reyna að viðhalda þessum samningi sem allra lengst,“ segir Davíð einnig.

Ólafur tekur undir þetta: „Ég held að það sé algjört ábyrgðarleysi að kasta því svona fram eins og fólk hefur gert bæði varðandi þriðja orkupakkann, sem ég skil nú ekki allt vesenið út af, og eins varðandi það að sumir stjórnmálaflokkar vilja ekki fara að dómum EFTA dómstólsins um innflutning á ferskvöru. Fólk kastar því fram að það sé bara hægt að fara og semja upp á nýtt, það er engan veginn sjálfgefið.“

Lítil stemning fyrir aðildarviðræðum að ESB

Aðspurður um hvort einhver þörf sé á að ganga í Evrópusambandið þegar við séum með þetta sterkan EES samning segir Ólafur: „Það er að minnsta kosti engin stemning fyrir því núna. Við vorum að gera könnun meðal okkar aðildarfyrirtækja á ýmsum málum. Það er mjög lítill stuðningur við aðildarviðræður um aðild að Evrópusambandinu og miklu minni en var fyrir fáeinum árum.“

Davíð samsinnir því: „Ég held að við séum bara í góðum málum eins og við erum.“

Nánar er rætt við Davíð og Ólaf í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.