Kaja ljóstrar upp leyndarmálinu: „hér kemur uppskriftin gómsæta og aðferðin“ - ómótstæðilegi holli aramant bitinn

Á dögunum heimsótti Sjöfn Þórðar Matarbúr Kaju á Akranesi.  Matarbúr Kaju er  heild­sala, versl­un og líf­rænt kaffi­hús sem hef­ur að geyma marg­ar þær bestu kök­ur og kræs­ing­ar sem finn­ast hér á landi. Karen Jónsdóttir, sem er að öllu jöfnu kölluð Kaja, er kon­an á bak við þetta allt sam­an .  Hennar regl­a er ein­föld þegar kemur að vöruvali: all­ar vör­ur eru líf­ræn­ar, um­hverf­i­s­væn­ar og gæðin í há­marki.

\"\"

Kaja trú­ir því staðfast­lega að við séum það sem við borðum og með þann boðskap að leiðarljósi stofnaði hún Kaja Org­anic, Mat­ar­búr Kaju og Café Kaju sem blómstr­ar á Skag­an­um og gleður líkama og sál.  Sjöfn fékk Kaju til að segja okkur frá einum af sínum uppáhalds holla bita og um leið frá uppskriftinni bak við hann.

„Mig dreymir alltaf að hafa fullan kaffihúsaskáp á kaffihúsinu bara með svona heilsusamlegum stykkjum og hrátertum og því fer ágætis tími í að finna og búa til eitthvað sem gengur en þegar ég er að gera svona lagað þá er eitthvað hráefni sem er ákveðið fyrirfram.  Oftast gúggla ég uppskriftir til að sjá hinar og þessar uppskriftir þá sér maður oftar en ekki þá samsetningu sem manni líst best á.  Í þessu tilfelli þá finnst mér möndlusmjör hrikalega gott svo því var breytt í upphaflegu uppskriftinni ásamt sætunni. Sætuna sem ég vel í mín stykki er alltaf agave, hlynssíróp eða hunang eftir því hvað ég er að gera. Hlynssíróp og möndlusmjör smellpassar saman og svo dass af salti til að þetta nái hærri hæðum nota ég fleur de sel í þessa (hægt að nota flögusalt í staðinn).

Súkkulaðið ofaná, valdi ég hrásúkkulaðið frá Lovechock því bitinn er frekar væminn en súkkulaðið frá Lovechock frekar rammt og inniheldur líka brotnar kakónibbur. Ef maður vill fara í dekkra súkkulaði þá er 93% frá Lovechock algjör snilld.  Þegar búið að að skella pure nips Lovechock á þá færðu hrikalega góðan bita.  Ég prufaði með 70% súkkulaði en er ekki að gera sig eins og þetta,“ segir Kaja og vildi með glöðu geði svipta hlulunni af þessari ómótstæðilegu uppskrift af hollum bita sem gleður líkama og sál. 

\"\"

„Hér kemur uppskriftin gómsæta og aðferðin.  Einnig er vert að upplýsa það að bitinn er til sölu á kaffihúsinu mínu á Akranesi og mögulega fer hann í framleiðslu.  Í öllum tilvikum sem í raun ætti ekki að þurfa að nefna, þá ég nota lífræn hráefni í allar mínar vörur.“

Ómótstæðilegi holli Aramant bitinn hennar Kaju

330 g möndlusmjör gróft/dökkt 

4 msk. hlynssíróp 

50 g kaldpressuð bragð og lyktarlaus kókosolía

Þetta þrennt, möndlusmjörið, hlynssýrópið og kókosolían, er sett í blandara og blandað vel saman. Þegar búið er að blanda þetta saman þá er blöndunni hellt yfir 80 g poppað Amarant frá Kaju (fæst í Fjarðarkaup, Melabúðinni, Bændur í bænum, Matarbúri Kaju Akranesi). Það er alls ekki gott að nota poppað kínóa það er svo seigt. 

Blöndunni er hrært saman ásamt ¼ tsk fleur de sel.  Best að nota hendurnar þegar þessu er blandað saman. Hægt er líka að nota íslenska sjávarsaltið. 

Síðan er blandan sett í form og inn í kæli eða frysti í 30 mínúntur.  Eftir kælingu er formið tekið út og kakan, blandan ,skorin í hæfilega bita.

Að lokum er Lovechock súkkulaðistykki brætt og sett ofaná.  Lovechock fæst í Hagkaup, Heilsuhúsunum og í versluninni Bændur í bænum. Þá er Amarant bitinn tilbúinn og hægt að njóta hans til fulls.

Njótið vel.