Uppskrift: hinn fullkomni haustréttur írisar ann – graskers ravioli sem bráðnar í munni

Haustið er skollið á með allri sinni fegurð og því fylgir líka að flestir fara að gefa sér meiri tíma í eldhúsinu og elda sína uppáhalds haustrétti. Haustinu fylgja líka ákveðnar matarvenjur, hefðir og siðir sem gleðja. Að þessu sinni heimsótti Sjöfn Þórðar, Íris Ann Sigurðardóttur, ljósmyndara og athafnakonu og annan eiganda The Cooco´s Nest og Luna Flórens. Sjöfn fékk Írisi Ann til að segja frá sínum sínum uppáhalds haustrétti og sögunni bak við hann.

Áttu þér þinn uppáhalds haustrétt?

„Minn uppáhalds haustréttur er Graskers ravioli með salvíu og smjörsósu. 

Það er svo gaman að skoða hvaða grænmeti eða ávextir eru í blóma sínu og vinna svo út frá því, grasker á þessum tíma eru algjört lostæti.“

Hver er sagan bak við haustréttinn?

„Ég bjó um tíma á Ítalíu og er mjög hrifin af þeirri matargerð, fæ nostalgíu við að borða góðan pasta rétt.“

Hvað er það sem þér finnst fallegast og skemmtilegast við haustið?

„Mér finnst haust litirnir svo fallegir og það sem ég kann að meta við haustið er hvernig allt fellur í betri rútínu, ég elska að vera fiðrildið sem ég er en eftir sumarið þá er ég alltaf tilbúin í meiri rútínu og skipulag.“

Graskers ravioli með salvíu og smjörsósu að hætti Írisar Ann og Lucasar

Pastadeig

5 egg

500 ghveiti

klípa af salti

1 tsk.  ólífuolía

Búðu til eldfjall með hveitinu á stöðugu borði bættu við eggjunum í opið á eldfjallinu sem og saltinu og olíunni. Blandaðu saman með gafli og smátt og smátt ýtir hveitinu frá hliðum fjallsins niður í blönduna, þegar allt hveitið er komið skal hnoða deigið vel með aftari hluta hendarinnar, þetta er gert í um það bil fimm mínútur. Deigið er svo sett í matarfilmu og látið hvílast í kæli í að minnsta kosti 30 mínútur og mesta lagi 24 tíma.

Til þess að fletja deigið í ravioli er best að nota pastavél( við hjónin notum Kitchen Aid).  Löng lengja er búin til og fyllingin svo vandlega sett í litlar kúlur ofaná deigið. Eins lengja er svo lögð ofaná lengjuna og svo er deigið skorið í litla kodda, til þess að loka koddunum er best að nota endan á gafli sem skilur eftir fallegt mynstur. Ferskt pasta þarf aðeins að elda í örfáar mínútur, um það bil 2-3 mínútur. 

\"\"

Graskers fylling 

1 lítið grasker fer eftir hvernig grasker er notað, sjá mynd

olífuolía

25 g parmigiano eða grana ostur

múskat, salt og pipar eftir smekk, mælt með litlum klípum af hverju

chilli korn fyrir þá sem vilja bæta við smá sterkleika

Skerðu niður graskerið í litla bita og settu í eldunarfat með olífuolíu, bættu við klípu af salt, chilli og múskati (helst ferskt fínsaxað múskat) og bakið í ofni á 180° gráðu hita í um það bil 30 mínútur eða þar til að graskerið er orðið mjúkt. Látið kólna.

Blandið svo við ostinum og bætið við salti og pipar eftir þörfum, ekki bæta við olíu það getur látið pastað verða of  blautt.

Smjörsósa/ Burnt butter and sage

200 g smjör 

12 lauf salvía

Toppað af með parmigiano eða grana osti.

Hitið pönnu á meðal hita, þegar hún er orðin heit bætið við smjörinu, hvirflaðu pönnunni til þess að bræða smjörið. Þegar smjörið er byrjað að mynda froðu bættu við laufunum og takið pönnuna af hitanum. Varlega bætið við pasta koddunum, notið skeið til þess að hella sósunni yfir pastað. Setið á disk og toppið af með parmigiano osti eða grana.

Njótið vel.