Unga fólkið horfir út fyrir höfuðborgina

Guðbergur Guðbergsson fasteignasali er gestur Heimilisins í kvöld:

Unga fólkið horfir út fyrir höfuðborgina

Það sem öðru fremur einkennir íbúðakaup ungs fólks á suðvesturhorninu um þessar mundir er hvað margt af því horfir út fyrir höfuðborgarsvæðið og segtur sig niður á Akranesi, Hveragerði, Selfossi og Reykjanesbæ.

Ástæðan er á að giska einföld að því er Guðbergur Guðbergsson fasteignasali hjá fasteignasölunni Bæ segir í þættinum Heimilið á Hringbraut í kvöld, en íbúðaverð í þessum ytri kraga höfuðborgarsvæðisins er nálega þriðjungi lægra en víðast hvar þekkist við og innan borgarmarkanna. Þá eru líka margar eignir í boði á þessum slóðum, enda uppbygging mikil á Skaganum, fyrir austan fjall og suður með sjó - og mikla vinnu að hafa á flestum þessum stöðum, einkanlega á Reykjanesi.

Í viðtalinu við Guðberg er einnig farið yfir mismunandi verðlagningu fasteigna á sjálfu höfuðborgarsvæðinu, sem getur verið mikil, jafnvel innan einstakra hverfa, svo sem í Breiðholti þar sem munurinn getur hæglega verið 20 prósent á verði sambærilegra eigna innan sama hverfis.

Heimilið byrjar klukkan 20:00 í kvöld.   

Nýjast