Undirbúa aðgerðir ef ekki semst í vikunni

Iðnaðarmenn munu hefja undirbúning verkfallsaðgerða í næstu viku fari kjaraviðræðum þeirra við Samtök atvinnulífsins ekki að miða áfram í þessari viku. Þetta segir Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og talsmaður samflots iðnaðarmanna.

Lítið hefur miðað í viðræðum að undanförnu en samflot iðnaðarmanna mun funda með SA í húsakynnum ríkissáttasemjara á morgun. Í samtali við Vísi segir Kristján Þórður að líklegast verði horft til takmarkaðra aðgerða, líkt og verkalýðsfélögin gripu til í nýafstöðnum kjaraviðræðum við SA.

Hann segir þessa viku mikilvæga enda kjaraviðræðurnar komnar í tímapressu og brýnt að klára þær sem fyrst. Iðnaðarmenn séu reiðubúnir að funda alla daga þessarar viku með það fyrir augum að sjá fyrir endann á viðræðunum.

„Uppleggið verður að reyna að sjá til lands í okkar samningum og ef það fer ekki að skýrast í þessari viku teljum við okkur knúna til að taka önnur skref í þessum viðræðum,“ segir Kristján Þórður.

Þar á hann við verkfallsaðgerðir.„Já það er þá það eina sem við getum gert, að grípa til aðgerða ef við náum ekki að semja.“

Kristján Þórður segir að launaliðurinn geti reynst erfiður en menn þurfi að sjá hvernig hann geti litið út ásamt lágmarkstöxtum. „Okkar áherslur á undanförnum árum hafa verið að notast við prósentuhækkanir, en við höfum einnig notast við krónutöluhækkanir á síðustu árum, þannig að við erum opnir fyrir ýmsum leiðum.”